Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital keypti fyrr í dag tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka fyrir liðlega 6,5 milljarða króna, samkvæmt heimildum Markaðarins. Seljandi hlutabréfanna var eignarhaldsfélagið Kaupþing, stærsti hluthafi bankans.

Taconic Capital, sem átti fyrir kaupin 9,99 prósenta hlut í Arion banka, keypti samanlagt 90,7 milljónir hluta í bankanum sem jafngildir tæplega fimm prósenta hlut miðað við útistandandi hlutafé bankans. Voru kaupin gerð á genginu 72 krónur á hlut og var kaupverðið því ríflega 6,5 milljarðar króna.

Til samanburðar stóð gengi hlutabréfa í bankanum í 77,4 krónum á hlut eftir lokun markaða í gær.

Bréfin hafa lækkað um 1,2 prósent í verði í 6,6 milljarða króna viðskiptum það sem af er degi.

Sem kunnugt er gekk Kaupþing frá sölu á um tíu prósenta hlut í Arion banka, 200 milljónum hluta að nafnverði, í síðustu viku fyrir samtals um fjórtán milljarða króna. Fóru þau viðskipti fram á genginu 70 krónur á hlut.

Söluferlið fór þá fram með svonefndu tilboðsfyrirkomulagi (e. accelerated bookbuild offering) þar sem hluturnir voru boðnir til sölu í gegnum fjárfestingabanka og verðbréfafyrirtækja til fjárfesta á verði sem er nálægt því sem bréfin eru að ganga kaupa kaupum og sölum á markaði.

Rúmlega 86 milljónir hluta voru seldir fjárfestum í gegnum Kauphöllina á Íslandi fyrir samtals um sex milljarða króna en afgangurinn, 114 milljónir hluta, var seldur fjárfestum í gegnum kauphöllina í Svíþjóð.

Eins og fram kom í Markaðinum fyrr í vikunni keypti fjárfestingafélagið Stoðir, sem er í meirihlutaeigu meðal annars Jóns Sigurðssonar, Einars Arnar Ólafssonar, Magnúsar Ármann og Tryggingamiðstöðvarinnar, um þriðjung af þeim tíu prósenta hlut sem Kaupþing seldi í síðustu viku.

Í kjölfar kaupanna er fjárfestingafélagið orðið stærsti íslenski fjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með um 4,5 prósenta hlut af útistandandi hlutafé bankans.

Sá sem stýrir félaginu sem heldur utan um hlut Taconic Capital í Arion banka er Frank Brosens, stofnandi og eigandi bandaríska vogunarsjóðsins.

Arion banki var sem kunnugt er skráður á markað á Íslandi og í Svíþjóð í júní í fyrra þegar Kaupþing seldi samtals um 29 prósenta hlut í bankanum í almennu hlutafjár­útboði. Fyrir utan Kaupþing, sem á núna um 18 prósenta hlut, og Taconic Capital, með hátt í 15 prósenta hlut, eru stærstu hluthafar bankans meðal annars erlendu vogunarsjóðirnir Och-Ziff Capital og Attestor Capital og íslenska fjárfestingafélagið Stoðir.