Vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem var stærsti hluthafi Arion banka um nokkurt skeið, var meðal þeirra sem kom að fjármögnun á skuldsettri yfirtöku félagsins Strengs, sem hjónin Ingibjörg Pálmadóttur og Jón Ásgeir Jóhannesson og Sigurður Bollason fara meðal annars fyrir, á Skeljungi í byrjun ársins, samkvæmt staðfestum heimildum Markaðarins.

Auk Taconic, sem seldi allan 24 prósenta hlut sinn í Arion á fyrstu þremur mánuðum ársins, var yfirtakan fjármögnuð með aðkomu Kviku og TM. Stærstur hluti fjármögnunarinnar var hins vegar frá Arion banka og Íslandsbanka, umsjónaraðilar með yfirtökunni. Strengur, sem átti þá um 36 prósenta hlut, setti fram tilboð í alla hluti Skeljungs í nóvember í fyrra á genginu 8,315 krónur á hlut sem verðmat það á 16 milljarða.

Fáir hluthafar Skeljungs samþykktu yfirtökutilboðið, eða aðeins eigendur 2,56 prósenta hlutafjár, en í kjölfarið bætti Strengur við sig hlutum með kaupum á markaði – á gengi yfir 10 krónur á hlut – og varð meirihlutaeigandi með rúmlega 50 prósenta hlut í byrjun janúar. Markaðsvirði Skeljungs er í dag 20 milljarðar.

Viðskiptin við yfirtökuna, sem af þeim sem til þekkja eru sögð hafa verið einstaklega flókin í framkvæmd, voru fjármögnuð með veðlánum frá bönkum, víkjandi lánum, brúarlánum auk eiginfjárframlags.

Þegar yfirtökutilboðið var lagt fram undir lok síðasta árs boðuðu forsvarsmenn Strengs miklar breytingar á rekstri Skeljungs ef yfirtakan næði fram að ganga og vísuðu þá meðal annars til þess að félagið gæti ekki reitt sig á tekjur af bensínsölu á neytendamarkaði til lengri tíma litið. Þannig yrði stefnt að því að selja ýmsar eignir á borð við lóðir, fasteignir og rekstrareiningar auk þess sem stjórnendur Strengs hafa lýst yfir vilja til að skrá Skeljung af markaði.

Á meðal þeirra eigna sem Skeljungur skoðar nú að selja frá sér er olíufélagið P/F Magn, dótturfélag Skeljungs í Færeyjum.