Bandaríski vogunarsjóðurinn Taconic Capital, sem hefur verið stærsti hluthafi Arion banka undanfarin ár, er nú að ganga frá sölu á öllum útistandandi eignarhlut sínum í bankanum, samtals 9,56 prósenta hlut, fyrir um 20 milljarða króna.

Leitað var til áhugasamra fjárfesta í gær um að kaupa hlut Taconic í Arion banka, samtals 165,35 milljónir hluta að nafnverði, á genginu 120 krónur á hlut, sem er lítillega yfir núverandi markaðsverði, en gengi bréfa bankans stóð í 116 krónum við lokun markaða í gær. Samkvæmt heimildum Markaðarins var búið að afla tilboða fjárfesta, einkum verðbréfasjóða, lífeyrissjóða og efnameiri einstaklinga, í allan hlut vogunarsjóðsins í gærkvöldi.

Það eru Fossar markaðir sem hafa umsjón með viðskiptunum.

Sjóðurinn hóf að losa um hlut sinn í bankanum, eins og Markaðurinn hefur áður upplýst um, í lok janúar þegar hann gekk frá sölu á tæplega sjö prósenta hlut með tilboðsfyrirkomulagi fyrir samtals 11,4 milljarða. Frá þeim tíma hefur sjóðurinn haldið áfram að minnka stöðugt við hlut sinn í bankanum með sölu í nokkrum stórum viðskiptum á undanförnum vikum.

Taconic Capital átti um 23,2 prósenta eignarhlut í bankanum áður en hann hóf að minnka skipulega hlut sinn í ársbyrjun. Á aðeins um tveimur mánuðum hefur sjóðurinn núna selt allan hlut sinn í Arion fyrir samanlagt liðlega 44 milljarða króna.

Þá hefur annar bandarískur vogunarsjóður, Sculptor Capital Management, selt í Arion fyrir samtals um 16 milljarða króna. Sjóðurinn, sem áður hét Och-Ziff Capital, var í desember í fyrra annar stærsti hluthafi bankans með tæplega 10 prósenta hlut en um miðjan febrúar síðastliðinn var hann búinn að losa um öll bréf sín í bankanum.

Taconic Capital kom fyrst inn í hluthafahóp Arion banka vorið 2017 þegar sjóðurinn, ásamt tveimur öðrum erlendum vogunarsjóðum og fjárfestingabankanum Goldman Sachs, keypti samtals nærri 30 prósenta hlut í bankanum af eignarhaldsfélaginu Kaupþingi fyrir um 49 milljarða króna.

Sjóðurinn bætti verulega við eignarhlut sinn í Arion banka árið 2019 þegar hann keypti samanlagt um þrettán prósenta eignarhlut í tveimur viðskiptum í apríl og júlí það ár. Seljandi bréfanna var eignarhaldsfélagið Kaupþing en gengið í þeim viðskiptum var annars vegar 72 krónur á hlut og hins vegar 75,5 krónur á hlut.

Fyrir söluna á síðustu bréfum sínum í Arion banka voru aðrir helstu hluthafar bankans Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna, LSR og Stoðir.

Hlutabréfaverð Arion hefur hækkað um liðlega 22 prósent frá áramótum og markaðsvirði bankans nú rúmlega 200 milljarðar króna.

Bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs hækkað verðmat sitt á Arion banka í síðsta mánuði um meira en þriðjung og metur nú gengi bréfa íslenska bankans á 150 krónur á hlut. Er fjárfestum ráðlegt að kaupa í bankanum en fyrri ráðgjöf var að halda bréfunum og verðmatsgengi upp á 112 krónur á hlut.