ÁTVR hefur enn ekki skilað inn lögbannsbeiðni frá vegna starfrækslu erlendra netverslana með áfengi hér á landi. Þetta staðfestir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR.

„Við erum að vinna málið núna og ekki hægt að segja til um hvenær lögbannskröfunni verður skilað inn,“ segir Sigrún. Aðspurð um hvenær lögbannskröfunni yrði skilað inn var Sigrún ekki tilbúin að fullyrða neitt um það. Tilkynning yrði send út þegar lögbannskröfunni væri komin til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.

ÁTVR sendi frá sér fréttatilkynningu í byrjun viku þar sem greint var frá því að undirbúningur að lögbannskröfu á hendur netverslunum með áfengi væri hafinn. Því yrði svo fylgt eftir með lögbanni. Jafnframt væri undirbúningur lögreglukæru vegna starfseminnar hafinn.

„Einkaréttur ríkisins til smásölu áfengis byggir á lýðheilsusjónarmiðum og því mati löggjafans að markmiðum um heilsu þjóðarinnar verði ekki náð með öðru og vægara móti. Verði starfsemi vefverslana í beinni samkeppni við smásölu ÁTVR látin óáreitt felur það í sér grundvallarbreytingu á áfengisstefnunni og forsendum fyrir rekstri fyrirtækisins,“ sagði í tilkynningu ÁTVR.