Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson afhenti Valdimar Óskarssyni, framkvæmdastjóra Syndis, verðlaunin.

„Fá fyrirtæki á Íslandi hafa verið jafn áberandi á sviði öryggismála og Syndis. Segja má að Syndis séu orðið að ímynd upplýsingaöryggis á Íslands. Starfsmenn Syndis hafa fundið stóra öryggisgalla í vörum og þjónustu frá stórum og þekktum framleiðendum víðsvegar um heim. Syndis hefur einnig aðstoðað mörg fyrirtæki sem hafa orðið fyrir barðinu á tölvuþrjótum en mikilvægasti hluti starfsemi Syndis er hjálpa fyrirtækjum að verjast árásum og þar með lágmarka það tjón sem fyrirtæki geta orðið fyrir. Syndis hefur alltaf reynt að bregðast fljótt við þegar að nýjar ógnir steðja að, sem dæmi má nefna að Syndis tók þátt í viðbrögðum við “Log4j” veikleikanum sem hafði mikil áhrif í tölvuheiminum síðasta vetur og aðstoðaði fyrirtæki hvernig þau ættu að bregðast við þessari ógn,“ segir í rökstuðningi valnefndar um upplýsingatækniverðlaun Skýrslutæknifélags Íslands.

Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri Syndis sagði: „Hjá Syndis starfa sérfræðingar sem þekktir eru í heiminum fyrir störf sín í upplýsingaöryggi og vinna um allan heim að öryggismálum og hafa haldið fjölda erinda á alþjóðlegum ráðstefnum. Mikilvægur þáttur starfsemi Syndis er fræðsla, en starfsmenn Syndis kenna tölvuöryggi við báða háskólana í Reykjavík ásamt því að kenna unglingum og standa að hakkarkeppnum í samstarfi við Gagnaglímufélagið, Ríkið og Ský, samanber keppnina sem var að ljúka hér í dag. Syndis hefur frá upphafi lagt ríka áherslu á rannsóknir og þróun á sviði upplýsingaöryggis, starfandi innan Syndis er hugbúnaðardeild sem vinnur að því að þróa lausn sem metur hversu freistandi fyrirtæki eru fyrir hakkara, sem geta jú verið út um allan heim. Reynsla öryggissérfræðinga innan Syndis nýtist vel við þessa vinnu.“