Sýn, sem rekur meðal annars Stöð 2 og Vodafone, tapaði þremur milljónum króna á fjórða ársfjórðungi 2020 samanborið við 2,1 milljarðs tap á sama tíma fyrir ári. Virðisrýrnun að fjárhæð 2.452 milljóna króna varð færð á fjórða ársfjórðungi 2019.

Fram kom í fjárfestakynningu, sem ber yfirskriftina ár viðsnúnings, að áætlanir síðasta árs gerðu ráð fyrir hagnaði en samdráttur vegna heimsfaraldursins hafi komið kom í veg fyrir það.

Tekjur á fjórða ársfjórðungi 2020 námu 5.413 milljónum króna sem er aukning um 478 milljónir króna á milli ára. Eiginfjárhlutfall félagsins var 27,8 prósent í lok ársins 2020.

„Það dregur úr samdrætti á auglýsingatekjum en lækkun á milli ára nemur 11 prósentum sem skýrist helst af COVID-19. Tekjur af sjónvarpsdreifingu aukast um 18 prósent á milli ára. Jákvæð þróun í áskriftartekjum á seinni helmingi ársins þar hefur breyting í vöruframboði haft góð áhrif,“ segir í fjárfestakynningu.

Viðskiptavinum Stöðvar 2 fjölgaði

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að með breytingum vöruframboði hafi tekist að fjölga viðskiptavinum Stöðvar 2. „Þeim fjölgaði um 14 prósent á árinu 2020. Við höfum stöðugt lækkað verð frá því tókum yfir fjölmiðlareksturinn. Verð á Stöð 2 Sport hefur helmingast á síðustu 3 árum og nú bjóðum við upp á að kaupa áskrift að Stöð 2 Ísland og Stöð 2 Erlent á áður óþekktum verðpunkti, eða á 3.990 kr.

Efnisveitan okkar Stöð 2+ er í miklum vexti og á síðasta ári fjölgaði áskrifendum um 9 prósent á árinu. Stöð 2+ er stærsta efnisveitan með íslenskt efni og hefur algera sérstöðu á markaði.“

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Hann segir að í maí hafi verið sett af stað herferð sem bar heitið Nýtt upphaf. „Hluti af þessu verkefni var að tryggja að allir okkar viðskiptavinir væru í réttum þjónustuleiðum. Skemmst er að segja frá því að í lok árs höfðu þjónustuleiðir 25.000 heimila verið yfirfarnar. Verkefnið hlaut frábærar viðtökur hjá viðskiptavinum okkar, sem birtist meðal annars í aukinni ánægju í mælingum okkar, þeim hæstu í sögu fyrirtækisins, en einnig í Ánægjuvoginni fyrir árið 2020. Þessi aðgerð leiðir til lækkunar á tekjum til skemmri tíma en við trúum því að til lengri tíma skili þetta okkur betri árangri. Við ætlum okkur auðvitað að geta mætt óvæntum ytri áföllum og erum í því augnamiði að straumlínulaga reksturinn enn frekar.“