Sýn tapaði 2.101 milljón króna á fjórða fjórðungi síðasta árs borið saman við 193 milljóna króna hagnað á sama fjórðungi árið áður. Tapið skýrist af því að viðskiptavild félagsins var færð niður um 2.452 milljónir króna en að henni frádreginni hefði hagnaður þess verið 351 milljón króna.

Fjarskiptafélagið birti afkomu fyrir fjórða fjórðung síðasta árs eftir lokun markaða síðdegis í gær. Samkvæmt afkomutilkynningu félagsins námu tekjur þess 4.935 milljónum króna á tímabilinu og lækkuðu um níu prósent frá sama tímabili árið 2018.

Þá var EBITDA Sýnar – afkoma fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, jákvæð um 1.409 milljónir króna á fjórða ársfjórðungi borið saman við 1.449 milljónir króna á sama fjórðungi árið 2018. Var EBITDA-hlutfall fjórðungsins 28,6 prósent en það var 26,7 prósent á sama tímabili árið áður.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir í tilkynningunni að ekki ætti margt að koma á óvart í uppgjöri félagsins, enda hafi sjóðstreymi og EBITDA verið í takt við horfur.

„Árið markast af því að verið var að framkvæma miklar breytingar á rekstrinum og færa niður viðskiptavild. Jákvæð breyting er verulega bætt sjóðstreymi en frjálst fjárflæði eykst um yfir milljarð króna,“ er haft eftir Heiðari í tilkynningunni.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.

Hann segir jafnframt horfur ársins 2020 ágætar.

„Við vitum að í óbreyttum rekstri munum við sýna bata í sjóðstreymi. Ofan á það kemur enn straumlínulagaðri rekstur og hugsanlegt hagræði af samstarfi í uppbyggingu 5G og tengdra verkefna sem gerir það að verkum að erfitt er styðjast við sama form á horfum og áður hefur verið.

Eldra form á horfum nær ekki utan um þær breytingar sem við ætlum að gera á rekstrinum,“ nefnir hann en markmið stjórnenda félagsins, samkvæmt afkomutilkynningunni, er að ná aukinni framlegð og betra sjóðstreymi úr rekstri félagsins á árinu. Er auk þess ráðgert að fjárfestingar ársins verði í kringum einn milljarð.