Sýn kynnti afkomu fjórða ársfjórðungs og heildarafkomu ársins nú eftir lokun markaðarins.

Tekjur af reglulegri starfsemi á fjórða ársfjórðungi 2021 námu 5,9 milljörðum sem er aukning um tæplega hálfan milljarð frá sama tímabili árið 2020. Tekjur ársins 2021 af reglulegri starfsemi námu 21,8 milljörðum. og hækkuðu um 800 milljónir milli ára, eða um 3,9 prósent.

Árið 2021 voru óvirkir farsímainnviðir seldir og nam söluandvirðið tæpum sjö milljörðum. Bókfært verð eignanna sem voru seldar var 401 milljón og söluhagnaður því rúmir 6,5 milljarðar Samhliða sölunni var gerður langtíma leigusamningur. Í samræmi við reikningsskilastaðla er hluta af söluhagnaði frestað. Árið 2021 var bókfærður söluhagnaður að frádregnum kostnaði við söluna að fjárhæð ríflega 2,5 milljarðar.

EBITDA leiðrétt fyrir áhrifum innviðasölu nam 1,7 milljörðum á fjórða ársfjórðungi samanborið við 1,4 milljarða. á sama tímabili í fyrra. Aðlagað EBITDA hlutfall er 28,1 prósent á fjórða ársfjórðungi 2021 samanborið við 26,1 prósent á fjórða ársfjórðungi 2020. Aðlöguð EBITDA ársins 2021 nam 6,4 milljörðum og hækkaði um 700 milljónir miðað við árið 2020. Aðlagað EBITDA hlutfall var 29,6 prósent árið 2021 samanborið við 27,4 prósent árið 2020.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi 2021 nam 2,3 milljörðum samanborið við þriggja milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Hagnaður ársins 2021 nam 2,1 milljarði. samanborið við 405 milljóna tap árið 2020. Innifalið í hagnaði ársins 2021 er hagnaður af sölu óvirkra innviða.

Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1,3 milljörðum samanborið við ríflega tvo milljarða á sama tímabili árið áður. Handbært fé frá rekstri á árinu 2021 nam fimm milljörðum samanborið við 5,9 milljarða árið 2020, sem er lækkun um 15 prósent.

Heildarfjárfestingar ársins 2021 voru jákvæðar sem nemur 4,2 milljörðum. Innifalið í fjárfestingarhreyfingum er tæplega sjö milljarðar vegna sölu á óvirkum farsímainnviðum og rúmur milljarður vegna sölu á eignarhlut í hlutdeildarfélaginu Hey. Þá námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 1,2 milljörðum. og fjárfesting í sýningarréttum ríflega 2,5 milljörðum.

Fjármögnunarhreyfingar á árinu 2021 voru neikvæðar um 5,9 milljarða. á móti rösklega 2,2 milljörðum árið 2020 sem er aukning um tæplega 3,7 milljarða. Söluandvirði af óvirkum farsímainnviðum og Hey var notað til að greiða niður langtímalán og lækka lánalínur.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 28,9 prósent í lok ársins 2021.

Spá félagsins fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir tekjuvexti umfram hækkun verðlags ásamt góðum vexti í nýlegum tekjustoðum. Þá er gert ráð fyrir að neikvæð áhrif heimsfaraldurs fara minnkandi og reikitekjur taki við sér.

Gengisþróun hefur töluverð áhrif á rekstrarafkomu, einkum við kaup á sýningarréttum og í fjárfestingum á farsímainnviðum. Fjárfestingar ársins 2022 eru áætlaðar 1,5-2,0 milljarðar og aukinn þungi verður lagður í 5G fjárfestingu.

Hluti af söluandvirði óvirkra farsímainnviða verður nýttur til fjárfestinga í innri vexti félagsins.

Heiðar Guðjónsson, forstjóri:

,,Síðustu misseri höfum við lagt ríka áherslu á að þróa fyrirtækið úr því að vera tæknidrifið (e. Engineer driven) og yfir í að vera þjónustumiðað (e. Customer centric), í samræmi við þá stefnu sem mótuð var sumarið 2019. Í takt við þessar áherslur er ánægjulegt að segja frá því að ánægja viðskiptavina hefur aldrei mælst meiri eftir sameiningu félagsins árið 2017.

Mikill árangur hefur náðst við að einfalda og rétta af rekstur fyrirtækisins síðustu ár. Okkur hefur tekist að snúa við taprekstri upp á um 100 milljónir á mánuði yfir í hagnað upp á sambærilega fjárhæð. Á sama tíma hefur okkur tekist að snúa algerlega við efnahag fyrirtækisins, greiða niður skuldir uppá fjóra milljarða og mynda söluhagnað uppá sex og hálfan milljarð. Þetta tvennt náðum við að gera í miðjum heimsfaraldri þar sem reikitekjur og auglýsingatekjur hrundu og lækkun krónunnar hækkaði innkaup fyrirtækisins umtalsvert. Þar að auki höfum við endursamið við alla okkar birgja til að auka sveigjanleika í rekstrinum. Stærsti áfanginn í þeirri vegferð var þó óumdeilanlega sala óvirkra innviða úr farsímakerfinu sem gekk í gegn þann 14. desember síðastliðinn og hyggjum við á enn frekari sölu innviða á næstu misserum í takt við stefnumótun okkar.“

Félagið hyggst læsa ákveðnum hluta Vísis þannig að einungis áskrifendur hafi aðgang að þeim hlutum. Einnig hyggur það á greiðsluhirðingu fyrir fyrirtæki.