Sýn gæti greitt út einn milljarð króna til hluthafa í kjölfar sölu á óvirkum farsímainnviðum ef stjórnendur fyrirtækisins kjósa að halda óbreyttu skuldahlutfalli með leiguskuldbindingum og óbreyttu eiginfjárhlutfalli. Þetta er mat greinenda Landsbankans.

Við upphaf mánaðar undirritaði Sýn samning um sölu og leigu á umræddum innviðum til erlendra fjárfesta. Samningarnir eru með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, auk annarra hefðbundinna fyrirvara um viðskipti af þessum toga. Viðskiptin munu styrkja efnahagsreikning félagsins og nemur væntur söluhagnaður yfir sex milljörðum króna.

Fram kemur í bréfi Landsbankans til fjárfesta sem Markaðurinn hefur undir höndum að borið hafi á áhyggjum af því að sjóðsstreymi Sýnar geti ekki staðið undir leigugreiðslum af innviðum. Að mati greinenda bankans eru leigugreiðslurnar ekkert sérstaklega íþyngjandi þótt fjárhæðin sé enn óljós því félagið muni líklega nýta verulegan hluta af söluverðinu til að greiða niður vaxtaberandi lán. Við það muni sparast um 100 til 120 milljónir króna í vaxtagreiðslur.

Greinendur bankans gera sér í hugarlund að greiðslan verði á bilinu 300 til 400 milljónir króna á ári. „Vert er að nefna að margt er enn óljóst, sér í lagi varðandi hvernig leigu á innviðunum verði háttað, þ.e. undirliggjandi vaxtakostnaður, leigutími og hvort leigan þróist með öðrum þáttum en til dæmis verðbólgu,“ segir í bréfinu.