Alls fá ní­tján einka­rekin fjöl­miðla­fyrir­tæki rekstrar­stuðning frá ríkinu árið 2021 en til út­hlutunar voru 392 milljónir króna að því er kemur fram í til­kynningu frá út­hlutunar­nefnd. Mennta- og menningar­mála­ráð­herra skipaði nefndina en hún hefur nú lokið störfum. Í fyrra fengu 23 fjöl­miðlar stuðning upp á 400 milljónir.

Sam­kvæmt til­kynningunni bárust í heildina 23 um­sóknir um rekstrar­stuðning og var heildar­fjár­hæðin í þeim um­sóknum 880 milljón krónur. Tveimur um­sóknum var synjað og tveimur vísað frá, þar sem þær bárust eftir að lög­bundinn frestur hafði runnið út.

Þrjár fjöl­miðla­veitur fá hvor um sig ríf­lega 81,45 milljónir króna í rekstar­stuðning. Er þar um að ræða Ár­vakur, sem gefur út Morgun­blaðið og rekur mbl.is auk fleiri vef­miðla, Sýn, sem rekur frétta­stofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, og loks Torg, sem gefur út Frétta­blaðið og DV og rekur miðilinn Hring­braut.

Fyrir­tækið sem fékk næst mestan stuðning, á eftir Ár­vaki, Sýn og Torgi, er Myllu­setur, sem rekur Við­skipta­blaðið, Frjálsa verslun, Fiski­fréttir og Hesta­blaðið, en fyrir­tækið fær ríf­lega 26,8 milljónir. Þar á eftir kemur Út­gáfu­fé­lagið Stundin sem fær ríf­lega 25,3 milljónir króna.

Sýn og Ár­vakur fá minni stuðning í ár heldur en í fyrra en þá fékk Ár­vakur rúm­lega 99,9 milljónir króna og Sýn rúm­lega 91,1 milljón króna. Stuðningur til Torgs er aftur á móti meiri milli ára en í fyrra fékk Torg tæp­lega 64,8 milljónir króna, en rétt er að nefna að frá þeim tíma hefur Torg tekið yfir rekstri DV.

Sundurliðun stuðnings eftir fyrirtækjum.