Sylvía Krist­ín Ólafs­dótt­ir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo, hef­ur tekið við stjórn­ar­for­mennsku í Íslands­sjóðum. Þetta kemur fram í frétt á mbl.is.

Sylvía situr einnig í stjórn Símans og Ölgerðarinnar.

Áður gegndi Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Alvotech, því starfi. Hún var aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á árunum 2016 til 2020.

Sylvía var áður forstöðumaður leiðakerfisins Icelandair. Hún hefur einnig starfað fyrir Landsvirkjun þar sem hún var deildarstjóri jarðvarmadeildar á orkusviði og fyrir Amazon í Evrópu, fyrst við rekstur og áætlanagerð og síðan við Kindle deild fyrirtækisins þar sem hún sá um viðskiptagreind og vöruþróun fyrir vefbækur auk þess að leiða greiningar- og stefnumótunarvinnu fyrir samningagerð við bókaútgefendur.

Sylvía er með M.Sc. próf í Operational Research frá London School of Economics og B.Sc. próf í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur sinnt stundakennslu við verkfræðideild HÍ í rekstrarfræði, kvikum kerfislíkönum og verkefnastjórnun (MPM).