„Ekkert fyrir­tæki ætti að græða svona sví­virði­lega á ó­lög­legri inn­rás Vla­dimír Pútíns í Úkraínu,“ segir Ed Da­vey, þing­maður og for­maður Frjáls­lyndra demó­krata í Bret­landi, í sam­tali við BBC.

Da­vey vísar þar í hagnaðar­tölur breska stór­fyrir­tækisins Shell en hagnaður fyrir­tækisins á síðasta ári nam 32,2 milljörðum punda, upp­hæð sem nemur 5.600 milljörðum ís­lenskra króna. Þennan gríðar­lega hagnað má að hluta til rekja til hækkandi olíu­verðs eftir inn­rás Rússa í Úkraínu.

Hagnaðurinn árið 2022 var tvö­falt meiri en hagnaðurinn 2021 og sá mesti í 115 ára sögu fyrir­tækisins. Hafa þing­menn í stjórnar­and­stöðu, Da­vey þar á meðal, kallað eftir því að fyrir­tæki sem skila svona gríðar­legum hagnaði borgi hærri skatt. Aukna skatt­heimtu væri hægt að nýta til að halda orku­kostnaði bresks al­mennings niðri, en sem kunnugt er hefur verð á raf­orku rokið upp undan­farin misseri.

Í frétt BBC kemur fram að Shell muni greiða sem nemur rúmum 320 milljörðum króna í skatta í Bret­landi og í ríkjum Evrópu­sam­bandsins. Til saman­burðar námu arð­greiðslur fyrir­tækisins á síðasta ári tæpum 3.700 milljörðum króna.