„Ekkert fyrirtæki ætti að græða svona svívirðilega á ólöglegri innrás Vladimír Pútíns í Úkraínu,“ segir Ed Davey, þingmaður og formaður Frjálslyndra demókrata í Bretlandi, í samtali við BBC.
Davey vísar þar í hagnaðartölur breska stórfyrirtækisins Shell en hagnaður fyrirtækisins á síðasta ári nam 32,2 milljörðum punda, upphæð sem nemur 5.600 milljörðum íslenskra króna. Þennan gríðarlega hagnað má að hluta til rekja til hækkandi olíuverðs eftir innrás Rússa í Úkraínu.
Hagnaðurinn árið 2022 var tvöfalt meiri en hagnaðurinn 2021 og sá mesti í 115 ára sögu fyrirtækisins. Hafa þingmenn í stjórnarandstöðu, Davey þar á meðal, kallað eftir því að fyrirtæki sem skila svona gríðarlegum hagnaði borgi hærri skatt. Aukna skattheimtu væri hægt að nýta til að halda orkukostnaði bresks almennings niðri, en sem kunnugt er hefur verð á raforku rokið upp undanfarin misseri.
Í frétt BBC kemur fram að Shell muni greiða sem nemur rúmum 320 milljörðum króna í skatta í Bretlandi og í ríkjum Evrópusambandsins. Til samanburðar námu arðgreiðslur fyrirtækisins á síðasta ári tæpum 3.700 milljörðum króna.