Innlent

Sviðs­mynd Seðla­banka fyrir hækkun olíu­verðs

Seðlabankinn lagði mat á áhrif áframhaldandi hækkana olíuverðs á þjóðarbúið.

Olíuverð hefur lækkað frá því að það náði hámarki í byrjun október. Nordicphotos/Getty

Seðlabanki Íslands spáir því að olíuverð verði í kringum 70 Bandaríkjadalir á tunnu í lok árs 2021 en spáin byggist á framvirku verði á alþjóðamarkaði. Verð á Brent hráolíu stendur nú í 73 Bandaríkjadölum.

Þetta kemur fram í ritinu Peningamál sem Seðlabankinn gaf út samhliða tilkynningunni um vaxtahækkunina í morgun. Er tekið fram að í spánni felist töluverð óvissa og ekki sé útilokað að verðið haldi áfram að hækka ef t.d. frekari truflanir verða á olíuframleiðslu í Venesúela eða ef viðskiptabann Bandaríkjanna grefur enn meira undan olíuútflutningi Írana án þess að aukin framleiðsla frá öðrum olíuframleiðendum komi á móti.

Í ritinu er rakið að olíuverð hafi farið upp fyrir Bandaríkjadali á tunnu seint í september og hafi það þá orðið þrefalt hærra en það var í janúar 2016 þegar það var lægst.

Seðlabankinn lagði mat á áhrif áframhaldandi hækkana á þjóðarbúið. Sviðsmyndin gerir ráð fyrir að olíuverð verði komið í 95 dali um mitt næsta ár og í ríflega 100 dali í lok ársins. Gert er ráð fyrir að verðið haldi áfram að hækka og verði komið í 110 dali í lok árs 2021 sem er það verð sem var að meðaltali frá ársbyrjun 2011 og fram í september 2014 áður en það tók að lækka

Samkvæmt sviðsmyndinni verður hrávöruverð um 9 prósentum hærra en í grunnspánni, útflutningsverð 2 prósentum hærra og neysluverðlag viðskiptalanda tæplega 1 prósentu hærra. Samanlagt hækkar innflutningsverðlag í erlendum gjaldmiðlum á næstu þremur árum því um 1-11/3 prósentu meira á ári en í grunnspánni og er orðið liðlega 3 prósentum hærra en í grunnspánni í lok spátímans.

„Hækkun olíuverðs og annars hrávöruverðs rýrir viðskiptakjör þjóðarbúsins og dregur úr kaupmætti heimila. Þjóðartekjur lækka því í samanburði við grunnspána og eftirspurn vex hægar. Landsframleiðslan yrði því um 0,1% lægri en í grunnspánni frá næsta ári. Innflutningsverð í krónum hækkar hraðar en í grunnspánni og er orðið liðlega 2% hærra í lok tímabilsins,“ segir í Peningamálum.

„Verðbólga eykst því í samanburði við grunnspá og  er orðin tæplega 0,2 prósentum meiri árið 2021 þegar ársáhrifin ná hámarki. Til að bregðast við almennri hækkun verðlags sem orsakast af olíuverðshækkuninni og tryggja að verðbólga leiti aftur í verðbólgumarkmiðið til meðallangs tíma eru vextir Seðlabankans orðnir um 0,2 prósentum hærri en í grunnspánni frá næsta ári. “

Þá muni hærri vextir þrýsta genginu krónunnar upp og verði raungengið liðlega einu prósentu hærra en í grunnspánni frá árinu 2020. Hærri vextir og gengi dragi einnig úr verðbólguáhrifum hækkunar olíuverðs með því að hægja enn frekar á innlendum efnahagsumsvifum.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Ingi­mundur lætur af for­mennsku ISAVIA

Innlent

Sam­eining lækkaði kostnað Festar um hálfan milljarð

Innlent

Rétt­lætis­mál að af­nema banka­skattinn

Auglýsing

Nýjast

Big Short-fjár­festir veðjar gegn bönkum í Kanada

Arnar Gauti tekur við af Guð­brandi

Norwegian refsað harðar en Boeing á mörkuðum

Upp­bygging Vestur­bugtar í upp­námi

Icelandair hækkar enn í kjöl­far WOW-vand­ræða

Festi kaupir hlut í Íslenskri orkumiðlun

Auglýsing