Guðrún Tinna hóf störf hjá Húsasmiðjunni árið 2020. Hún segir það hafa tekið sig mörg ár að finna jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldulífs.

Hver eru helstu áhugamálin?

Við hjónin eignuðumst fjórða og fimmta barnið fyrir tíu árum. Um hríð eftir það varð ekki mikill tími aflögu fyrir áhugamál. Sem betur fer hefur mér tekist á síðustu misserum að stunda áhugamálin með fjölskyldunni og vinum – hreyfing og útivera, skíði, leikhús, hönnun, næring og bókmenntir. Ekki má gleyma svo góðum vinkonuhitting sem er eitt það allra mikilvægasta. Fyrir ári síðan fékk ég svo golfbakteríuna. Kom mér skemmtilega á óvart hversu gaman er að stunda golf. Ég er líka svo heppin að hafa brennandi áhuga á smásölu, rekstri fyrirtækja og uppbyggingu vörumerkja. Það eru forréttindi að starfa við það sem maður hefur áhuga á.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Já, það geri ég – loksins. Það hefur tekið mig mörg ár að ná þeim tímapunkti, krafist vinnu og sjálfsaga. Ég held að ég sé mun afslappaðri og skemmtilegri manneskja í dag, sem samstarfsmaður, stjórnandi, vinur og foreldri en þegar ég tók vinnuna með mér heim alla daga vikunnar. Ætli þetta kallist ekki þroski. Þegar ég finn að vinnan er að taka yfir er kraftganga með góðan sænskan eða íslenskan krimma í eyranu góð leið fyrir mig til að ná jafnvægi aftur.

Hver er morgunrútínan þín?

Ég er A-týpa. Vildi stundum óska þess að ég gæti sofið út öðru hverju. Þar sem einungis eitt barna minna deilir þessu vandamáli með mér þá eigum við tvær okkar stund saman flesta daga vikunnar í ró og næði. Mér finnst gríðarlega mikilvægt að hefja daginn á góðum cappucino og hreyfingu, hvort sem er úti í náttúrunni, lyftingum eða hjá Helgu í Barre úti á Granda.

Hvers konar stjórnunarstíl hefur þú tileinkað þér og hvers vegna?

Ég hef markvisst reynt að þroska og betrumbæta stjórnunarstíl minn síðustu ár. Frá því að vera sérfræðingur í að vera umburðarlyndur en staðfastur leiðbeinandi. Ég lít á hlutverk stjórnanda að það sé að byggja upp öflugt teymi einstaklinga með mismunandi styrkleika þar sem hver og einn þorir að taka upplýstar ákvarðanir, taka ábyrgð og gera mistök. Það er fátt jafn gefandi og að vinna með sterku teymi sem kennir manni eitthvað nýtt. Bæði faglega og um fjölbreytileika fólks.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Jólin eru auðvitað skemmtilegur tími í smásölu. Verslanir okkar eru að fyllast af nýjum heimilistækjum, verkfærasettum og jólaseríum, svo eitthvað sé nefnt. Á sama tíma er mikill kraftur í verktökum um land allt. Október fram í desember er alltaf mikill álagstími í Húsasmiðjunni. Þá erum við að undirbúa opnun á nýrri verslun á Selfossi á næsta ári sem er mjög spennandi. Við höfum öflugt teymi hér innanhúss sem stýrir því verkefni í samstarfi við erlenda ráðgjafa. Þess á milli sækir maður handbolta- og fótboltamót, tónleika, hittir fjölskyldu, gleðst með vinum og reynir að lifa meira í núinu en maður gerði í gær.