Sigrún Hjartardóttir tók við sem forstöðumaður fjárstýringar hjá Icelandair örfáum dögum áður en ferðabann var sett á til Bandaríkjanna vegna Covid-19 heimsfaraldursins.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Hér væri gaman að geta sagt eitthvað flippað eins og fallhlífarstökk eða flúðasiglingar en nei, svo er víst ekki. Ég hef óhemjugaman af því að elda og fá skemmtilegt fólk í mat. Sem mótvægi við matarástina koma svo útihlaup sem eru í senn heilsu- og geðrækt. Finnst ekkert betra til að hreinsa aðeins hugann en að vera ein með sjálfri mér á einhverjum hlaupastíg eða utanvegarslóða.

Þá finnst mér áhugavert að pæla í alþjóðastjórnmálum og fjármálamörkuðum. Loks myndu einhverjir segja að Ítalía og ferðalög þangað væru sjálfstætt áhugamál hjá mér. Draumurinn er að dvelja þar um lengri tíma og ná tökum á ítölskunni.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ég hef alltaf lesið mikið, þakka það móður minni sem var dugleg að draga okkur systkinin á bókasöfn í æsku. 2021 var árið sem ég loksins uppgötvaði hljóðbækur sem nýtast vel við útihlaup og labb. (Óþolinmóða ég spila þær gjarnan á tvöföldum hraða til að spara tíma.)

Þær eru margar sögurnar sem hafa snert við manni og get ég nefnt til dæmis Konan í köflótta stólnum eftir Þórunni Stefánsdóttur, sem segir einlægt og hispurslaust frá baráttu sinni við þunglyndi. Dýralíf eftir Auði Övu spændi ég í mig og fannst á köflum ég vera að lesa eigin hugsanir. En líklega er Karítas án titils eftir Kristínu Mörju sú sem hefur haft hvað mest áhrif á mig.

Mér hefur alltaf fundist mjög áhugavert og í raun hollt að velta fyrir mér hlutskipti og lífsbaráttu formæðra minna. Það gerir manni gott að muna og þakka fyrir hversu langt við höfum náð, ekki bara í jafnréttisbaráttunni heldur í bættum almennum lífskjörum og tækifærum fólks til að ráða sér sjálft og feta eigin leið í lífinu.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Því er auðsvarað: Fjárhagsleg endurskipulagning Icelandair Group. Ég hóf störf hjá félaginu 5. mars 2020 þannig að ég var á sjötta degi í starfi þegar ferðabann var sett á til Bandaríkjanna sem engan gat órað fyrir að myndi vara í 19 mánuði. Á viku þrjú var flugáætlunin komin í brot af því sem fyrirhugað var og félagið ekki einungis orðið svo gott sem tekjulaust heldur þurftum við að endurgreiða tugþúsundir bókana vegna niðurfellinga á flugum. Það tók aðeins á að stýra lausafé samstæðunnar við þessar aðstæður.

Samtímis því var ég svo í stýrihópnum sem leiddi endurskipulagninguna og við Eva Sóley framkvæmdastjóri fjármála vorum á fullu í samningaviðræðum við alla helstu lánardrottna. Hún var því hressandi byrjunin á nýja starfinu.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Margar eru kallaðar en ætli London sé ekki með vinninginn. Hún er að minnsta kosti sú sem ég hef komið langoftast til. Falleg, full af sögu og merkum byggingum, iðandi fjölþjóðlegt mannlíf, góðir veitingastaðir, gott kaffi, fótbolti og stutt að fara. Hvað viltu hafa það betra?

Helstu drættir

Nám:

BS í viðskiptafræði frá Bifröst, MA í stjórnmálafræði með áherslu á stjórnmála- og hagsögu Asíu frá háskólanum í Lundi. Próf í verðbréfaviðskiptum.

Störf:

Forstöðumaður fjárstýringar, áhættustýringar og umbótaverkefna hjá Icelandair Group. Sit einnig í stjórn Eftirlaunasjóðs flugmanna. Þar áður var ég 13 ár hjá Íslandsbanka, lengst af í fyrirtækjaráðgjöf en einnig fjárfestatengslum og stefnumarkandi verkefnum.

Fjölskylduhagir:

Gift Elvari Vilhjálmssyni viðskiptafræðingi, sölustjóra hjá Avis bílaleigu. Fjölskyldan samanstendur af okkur hjónum, börnunum okkar þremur, Agli Orra, Marteini William og Ragnheiði Gróu, ásamt Havanese-hundunum okkar, þeim Flóka og Lubba.