Kristín Inga Jónsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, segir að það hafi verið hrist upp í vörumerki fyrirtækisins að undanförnu. „Nú erum við að hefjast handa við að skerpa aðeins á leikreglunum og framkvæma vörumerkjarýni sem er alltaf skemmtilegt verkefni fyrir markaðsdeild,“ segir hún.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ef það felur í sér sköpun, samskipti við annað fólk eða skemmtun þá þrífst ég vel! Umfram allt verður að vera gaman. Elska hlaup, sund og útivist. Þessa dagana eiga vinnan, fjölskyldan og framkvæmdir allan minn hug. Ég er svo heppin að vinna í skemmtilegu umhverfi og hef brennandi áhuga á því sem ég er að fást við þar. Svo erum við fjölskyldan á fullu í framkvæmdum núna að gera upp gamalt hús sem er mikið fjör en við erum öll svoddan brasarar þannig að engum leiðist. Ég fæ hellings útrás í þessu öllu saman og það hentar mér voða vel að hafa nóg fyrir stafni.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Erfitt val en Barcelona er mjög ofarlega á þeim lista. Hún er svona ein með öllu að mínu mati, skemmtileg stórborg með geggjaðar strendur, allt morandi í menningu og list og svo sangría á hverju horni!

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Síðasta vor tók ég við stjórn markaðsdeildar hjá Póstinum sem var stórt skref fyrir mig. Á sama tíma duttum við fjölskyldan niður á draumahúsið okkar á Kársnesinu sem við þurftum að byrja á að gera fokhelt. Þannig að við seldum fínu íbúðina okkar í Lindunum, fluttum búslóðina í bílskúrinn hjá ömmu og settumst að öll fjölskyldan í gamla herberginu mínu hjá mömmu og pabba! Síðan þá höfum við eytt nánast öllum okkar frítíma í skítagallanum, með okkar nánasta fólk í sjálfskipuðum þrælabúðum og eina þriggja ára ofurkonu með okkur sem er auðvitað alltaf aðalverkstjórinn. Nú sjáum við loksins fram á flutninga fljótlega sem verður kærkomið þó kommúnustemningin heima hafi haft sinn sjarma.

Nú fer líka að verða liðið ár síðan ég tók við markaðsdeildinni og vá hvað ég er búin að læra mikið á þessum stutta tíma. Þetta hefur verið svaka törn og hátt tempó á öllum vígstöðvum en það er stundum eins og töfrarnir gerist fyrir utan þægindarammann og ég er ánægð að hafa hjólað í þessi tækifæri.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Næst á dagskrá eru flutningar og gæðastundir í nýja húsinu. Sanka að sér fullt af gömlu drasli til að dytta að í skúrnum. Kannski stofna bílskúrsband til að gera endanlega út af við nágrannana? Nei, nei.

Svo er spennandi ár fram undan hjá Póstinum, stútfullt af nýjungum og framþróunarverkefnum með viðskiptaumönnun og þjónustuupplifun að leiðarljósi. Við höldum áfram að stækka dreifikerfið okkar með fjölgun Póstboxa um allt land og nú með nýjum möguleikum þar sem hægt er að sækja, senda og skila í Póstboxin!

Við höfum hrist hressilega upp í vörumerkinu síðan ég byrjaði og gert alls konar æfingar með það þannig nú erum við að hefjast handa við að skerpa aðeins á leikreglunum og framkvæma vörumerkjarýni sem er alltaf skemmtilegt verkefni fyrir markaðsdeild. Ég er svo heppin að fá að leiða mjög öflugt markaðsteymi og vinna að fjölbreyttum verkefnum þvert á fyrirtækið með öllu því frábæra fólki sem starfar hjá Póstinum í dag og er virkilega spennt fyrir árinu og öllu því sem fram undan er.

Stiklað á stóru

Nám:

MS í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og BA í félagsráðgjöf hjá HÍ.

Störf:

Forstöðumaður markaðsdeildar hjá Póstinum. Þar á undan markaðssérfræðingur hjá Póstinum, markaðsfulltrúi hjá Kynnisferðum og verkefnastjóri í markaðsdeild WOW air.

Fjölskylduhagir:

Í sambúð með Elíasi Fannari Stefnissyni, pípara og meðeiganda H2O lagna. Saman eigum við þriggja ára ofurkonu, Elísabetu Ósk.