Ásthildur Bára Jensdóttir, markaðsstjóri SalesCloud, kom að því að opna skemmtistaðinn Bankastræti í miðjum Covid-19 heimsfaraldri.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mín helstu áhugamál eru samverustundir með fjölskyldu og vinum, að skapa góða stemmingu og borða góðan mat sem leikur við bragðlaukana. Hreyfing, þá helst snjóbretti og brimbretti þar sem ég næ alveg að tæma hugann. Að hlusta á fræðibækur eða hlaðvörp og læra eitthvað nýtt sem gæti nýst mér í lífinu. Ferðalög eru líka ofarlega á lista, fátt er skemmtilegra en að kynnast nýjum heimshlutum.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Fullkomnu morgnarnir eru þannig að hundurinn minn fer fyrst út að pissa og svo sæki ég mér ískalt koffínvatn í ísskápinn sem ég drekk uppi í rúmi og les fréttir áður en ég tek mig til. Tek engifer -og túrmerikskot með vítamínunum og bý svo um rúmið. Hins vegar þegar ég er sein þá fær hundurinn að pissa en ekki ég því þá þarf ég að tannbursta á meðan ég klæði mig. Ég þamba svo koffínvatnið og hoppa út í öðrum skónum, með ógreitt hár og vítamínin í vösunum, ætli þessi rútína sé ekki aðeins algengari.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

The Power of Now eftir Eckhart Tolle. Góð vinkona mín benti mér á þessa bók á erfiðum tíma í mínu lífi, hún hafði mikil áhrif á lífssýn mína og nú nokkrum árum seinna er þessi bók enn að vekja mig til umhugsunar.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Áskoranirnar eru margar en jafnframt spennandi. Til dæmis höfum við í markaðsteymi SalesCloud hafist handa við endurhönnun og markaðsetningu fyrir Yess.is. Þá er einnig verkefni að kynna sölulausnir SalesCloud fyrir öllum þeim sem vilja notendavænar og skilvirkar lausnir í sínum viðskiptum.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Það var krefjandi að taka þátt í að opna skemmtistað í miðjum heimsfaraldri með tilheyrandi samkomutakmörkunum og óvissu. Við þurftum að reka staðinn á allt annan hátt en við hefðum gert í venjulegu árferði og það var áskorun að púsla öllu saman, vitandi að þessi rekstur yrði allt öðruvísi í framtíðinni. Eins krefjandi og þetta var þá var það jafn skemmtilegt, enda algjört fagfólk sem stendur á bak við skemmtistaðinn Bankastræti.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Tannlæknir, ég er heltekin af tönnum.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Chicago er í uppáhaldi. Þar færðu geggjaðan mat, fallegan arkitektúr og sólbaðsstrendur án salts.

Stiklað á stóru

Störf:

Veitingastjóri hjá Sæta Svíninu & Apótekinu.

Framleiðandi hjá framleiðslufyrirtækinu Ketchup Creative.

Flugfreyja hjá Icelandair.

Rekstrarstjóri skemmtistaðarins Bankastræti Club.

Markaðsérfræðingur hjá Tapas Barnum, Apótekinu, Fjall­konunni, Sushi Social og Sæta Svíninu.

Markaðsstjóri SalesCloud.

Fjölskylduhagir:

Einstæð með hvolpinn Neó.