Fida Abu Libdeh, stofandi og framkvæmdastjóri GeoSilica, segir að sér þyki gaman að því að læra nýja og spennandi hluti. Þá les hún margar bækur tengdar pólitík og markaðsfræðum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mér finnst mjög gaman að læra eitthvað nýtt, þarf ekki að vera á ákveðnu fagsviði, bara eitthvað hvað sem er nýtt og spennandi. Ég hef brennandi áhuga á nýsköpun, málefnum kvenna og innflytjenda. Mér finnst gaman að elda, borða góðan mat og verja tíma með fjölskyldunni. Ég hef sérstaklega gaman af því að spila við miðjubarnið. Við yngsta barnið mitt eigum það sameiginlegt að finnast gaman að fara út að borða á fína veitingastaði, að fara eitthvert út að leika, í búðaráp eða horfa saman á Disneymyndir. Mér finnst ómetanlegt að fá að rökræða við elsta barnið og velta fyrir mér hvernig næsta kynslóð hugsar hlutina og hvernig hún myndi takast á við áskoranir í framtíðinni. Annars fer mesti frítíminn í að standa hvetjandi á hliðarlínunni á fótboltamótum þar sem öll börnin mín æfa fótbolta af kappi.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég tek daginn yfirleitt snemma, á undan börnunum. Ég er ekki snúsari svo það er ekkert mál fyrir mig að vakna. Ég byrja á að taka saman nesti fyrir börnin. Ég hef lagt mig fram við að huga betur að heilsunni og ákvað fyrir ári síðan að hætta að borða morgunmat og fasta á morgnana til hádegis, en ég næ því sjaldnast alveg svo ég borða yfirleitt klukkan 11. Eftir fyrsta kaffibollann vek ég börnin og hjálpa þeirri yngstu að hafa sig til, svo lít ég yfir dagskrá dagsins áður en ég vel fötin sem ég ætla í og klæði mig í samræmi við viðburði dagsins. Til dæmis ef það eru bara fjarfundir þann dag fer ég í fína skyrtu og blazer yfir og þægilegar joggingbuxur með. Að þessu loknu þá er það að skutla í skóla og mæta í vinnuna.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Það er ekki einhver ein bók sem hafði áhrif á mig heldur mundi ég segja ein bókahilla hjá foreldrum mínum. Ég ólst upp við pólitískar bækur í kringum mig og byrjaði snemma að lesa slíkar bækur og velta pólitíkinni fyrir mér. Það hafði eflaust mikil áhrif á áhuga minn á pólitík í dag, svo les ég eða hlusta meira á fræðslubækur en skáldsögur. Ég hef sérstaklega gaman af rekstrar- og markaðsfræði og reynslusögum frá fólki sem hefur náð framúrskarandi árangri.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

GeoSilica hefur verið með vaxtarverki í smá tíma og næst á dagskrá er að fara í aðra umferð í fjármögnun. Það lofar góðu að sjá alla nýju fjárfestingarsjóðina hér heima sem leggja mikla áherslu á ábyrga fjárfestingu með tilliti til umhverfismála og aukinnar nýtingar á auðlindum.Hver er þín uppáhaldsborg?Það er borgin sem ég fæddist í, Jerúsalem eða Al-Quds, það er ótrúleg saga sem fylgir henni. Gamla borgin er svo falleg og það er áhugavert að sjá hvernig hún heldur utan um öll Abraham-trúarbrögðin og er helgasta borgin þeirra. Menningin, maturinn og minningarnar mínar um borgina gera hana að uppáhaldsborginni minni.

Helstu drættir

Fyrri störf:

Þegar ég kom fyrst til Íslands þá vann ég fyrst í fiskvinnslu, fljótlega eftir að ég náði betri tökum á íslensku fór ég að vinna í þjónustustarfi samhliða námi þá aðallega veitingstöðum. Lengst af starfaði ég hjá Olís og svo samhliða háskólanámi. Var það mitt síðasta starf áður en GeoSilica ævintýrið hófst fyrir alvöru

Menntun:

Orku og umhverfistæknifræðngur frá Háskóla íslands og MBA frá Háskólin í Reykjavík

Fjölskylduhagir:

Gift Jón Kristinn Ingason viðskiptafræðing, saman eigum við þrjár dætur; Watan (15 ára), Ragnheiði Tahrir (12 ára) og Valgerði Asalah (8 ára).