Sylvía Kristín Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar og markaðsmála hjá Origo, prófar alltaf eitthvað nýtt á hverju ári. Þannig lendir hún í óvæntum ævintýrum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég byrjaði fyrir nokkrum árum að stunda vatnabretti (e. stand up paddle) og finnst það mjög skemmtilegt. Það er eitthvað við það að standa úti á sjó – þar næ ég að hreinsa hugann algjörlega. Við fjölskyldan ferðumst mikið saman og höfum farið til Tókýó, Amazon­frumskógarins, Tíbet og Jórdaníu svo eitthvað sé nefnt. En aðaláhugamálið er að prófa alltaf einn nýjan hlut á ári – þannig hef ég lent í alls konar óvæntum ævintýrum. Þannig kynntist ég til dæmis spuna (e. improv for business) sem hefur nýst mér með fjölbreyttum hætti.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Þær eru margar en þær bækur sem grípa mig oftast eru dramatískar þroskasögur þar sem höfundar deila opinskátt reynslu sinni fyrir okkur hin til að læra af. Mér finnst fólk sem gerir það alltaf jafnt hugrakkt. Þar standa upp úr Geðveikt með köflum eftir Sigurstein Másson og Á mannamáli eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur. Síðan getur nú breytt hversdeginum og þungum vinnudegi að fletta í gegnum myndasögur. Dæs eftir Lóu Lóaboratoríum kemur mér oft í gott skap síðan eru New Yorker myndasögurnar oft hnyttnar.

Hver er helstu verkefnin fram undan?

Ég kom til Origo fyrir nokkrum mánuðum og hef verið að kynnast félaginu og vinna að stefnumótun með Jóni Björnssyni forstjóra og því góða fólki sem er hér. Tækni- og hugbúnaðargeirinn breytist hratt og framtíðarsýn Origo þarf að taka mið af því. Það kom mér skemmtilega á óvart hversu fjölbreytt vöruframboð og mikil nýsköpun er hjá Origo, þessi mikla áhersla á að þróa vörur sem bæta samfélagið. Við erum með augun á lausnum sem gera samfélagið betra fyrir þá sem nota vörurnar okkar og núna erum við til dæmis að vinna í lausnum sem urðu til innanhúss hjá okkur og hjálpa fyrirtækjum að komast í gegnum jafnlaunavottun ásamt spennandi lausn sem hjálpar heilbrigðisgeiranum að þjónusta sjúklinga sem þurfa heimahjúkrun. Síðan erum við með sterk vörumerki í búnaði og við vinnum líka að því að gefa tölvum og búnaði framhaldslíf með því að gefa þær áfram í fínu standi.

Við erum síðan að móta áfram viðskiptaþróunar- og markaðssvið okkar. Við viljum skerpa enn frekar á nálgun okkar í sölu- og markaðsmálum. Við erum að styðja fyrirtæki og einstaklinga til að nýta öll þau tækifæri sem felast í stafrænni þróun og aukinni tæknivæðingu. Ég tel mig ótrúlega heppna að fá að taka þátt í því og að fá að miðla því út á við sem við erum að gera. Fram undan hjá mér eru líka spennandi verkefni með Íslandssjóðum en ég tók við stjórnarformennsku þar nýlega. Mikill og góður gangur er hjá félaginu sem hefur vaxið ört síðustu árin og áhersla á samfélagsábyrgð og ábyrgar fjárfestingar er sífellt að aukast. Aðferðafræði ábyrgra fjárfestinga er beitt við stýringu allra sjóða og safna og vel hefur gengið að skapa góða ávöxtun fyrir viðskiptavini félagsins.

Helstu drættir

Nám:

M.S. í Operational Research frá London School of Economics og B.S. iðnaðarverkfræði frá HÍ.

Störf:

Framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar-og markaðssviðs Origo. Þar á undan leiðakerfistjóri hjá Icelandair, forstöðumaður rekstrar á jarðvarma- og vindorku hjá Landsvirkjun og vörustjóri í viðskiptagreind hjá Kindle Amazon.

Aukastörf:

Stjórnarformaður Íslandssjóða. Var í stjórn Ölgerðarinnar og Símans.

Fjölskylduhagir:

Gift Kjartani Bjarna Björgvinssyni dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur og saman eigum við tvo fótbolta- og skákstráka þá Matthías og Kormák.