Halla Lárusdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Securitas, segist löngu búin að átta sig á að á ákveðnum tímapunkti verði neikvætt samband milli vinnuframlags og -gæða. Hún stundar mikla útiveru, fer á hestbak, veiðir og stundar náttúruhlaup en hefur líka gaman af því að prjóna.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mín helstu áhugamál tengjast útiveru, fjölskyldan stundar hestamennsku og við verjum miklum tíma í hesthúsinu, við erum líka dugleg að ferðast um landið, hvort sem er til að skoða okkur um, ríða út eða veiða, en oftar en ekki liggur leiðin á heimaslóðirnar á Klaustri. Ég stunda svo náttúruhlaup og finnst gaman að prjóna, heilmikil slökun í því með góðu hlaðvarpi. Legg upp úr því að rækta garðinn minn, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Það getur verið áskorun þegar verkefnin eru skemmtileg, en ég er löngu búin að átta mig á að á ákveðnum tímapunkti verður neikvætt samband milli vinnuframlags og -gæða.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Ég er að lesa How to get sh*t done eftir Erin Falconer, þó hún tali ekki beint inn í mínar aðstæður núna eru þarna punktar sem alltaf er gott að rifja upp. Mjög áhugaverð upprifjun í upphafi bókarinnar á því hve stutt er síðan staða kvenna var allt önnur en í dag og því má ekki afskrifa femínismann. Er svo með einn James Patterson til að kúpla mig frá eftir daginn.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Eins og hjá mörgum öðrum fyrirtækjum hefur verið áskorun að glíma við COVID-faraldurinn og því miður hafa stór verkefni horfið í þessu breytta rekstrarumhverfi, en sem betur fer hafa önnur komið í staðinn. Við erum svo búin að vera í skipulagsbreytingum sem miðuðu að því að auka fókus rekstrarsviðanna á þjónustu við viðskiptavininn, þær hafa verið áskorun en skilað miklum árangri.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Í kjölfar stafrænnar stefnumótunar réðumst við í endurskoðun á verkferlum og höfum í kjölfarið hafið uppfærslu og innleiðingu á nýjum kerfum til að styðja við stefnuna, auka sjálfvirkni og koma enn betur til móts við þarfir viðskiptavina okkar. Þó þessari vinnu sé ekki lokið þá hefur hún þegar skilað okkur árangri og hjálpað okkur í þeim áskorunum sem komið hafa upp með COVID.

Hvernig er rekstrarumhverfi Securitas að taka breytingum og hvaða tækifæri felast í þeim?

Securitas er fyrst og fremst þjónustufyrirtæki en um leið hátæknifyrirtæki. Tækninni fleygir hratt fram og við erum í stöðugri þróun. Til þess að ná árangri í slíku umhverfi þarf að ná því allra besta fram í hverjum og einum. Við fórum í stafræna stefnumótun og vinnan í kjölfarið hefur skilað miklum árangri. Tækifærin eru mörg og spennandi tímar fram undan í að móta þjónustu okkar með viðskiptavininn í forgangi.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ég er nú á nokkuð réttum stað í lífinu, en líklega myndi nýr starfsframi fela í sér meiri sköpun.

Helstu drættir

Nám:

Ég er með meistrarpróf í reikningshaldi og endurskoðun frá Háskólanum í Reykjavík. Grunnurinn liggur í hagfræðinni en ég er með próf í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Störf:

Framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Securitas, tók því starfi árið 2014 eftir að hafa starfað sem aðalbókari félagsins. Starfaði áður hjá Flugleiðahótelum sem fjármálastjóri.

Fjölskylduhagir:

Gift Guðmundur Gíslasyni matreiðslumanni og við eigum tvö börn.