Helga Þórólfsdóttir, sáttamiðlari og stjórnendaráðgjafi hjá Lífi og sál, hefur meðal annars búið í Teheran í Íran og Búdapest í Ungverjalandi.

Hvað er sáttamiðlun milli vinnu­félaga?

Það er leið sem hægt er að fara þegar samstarfsfólk þarf aðstoð við að breyta samskiptamynsti sem veldur vanlíðan. Markmiðið er að gefa fólki tækifæri til að ná stjórn á aðstæðum þannig að það njóti sín í vinnunni. Athyglinni er beint að samskiptunum og hvaða áhrif þau hafa, frekar en að afmörkuðum deilumálum sem þarfnast úrlausnar. Hlustað er á sögur þátttakenda og þeir síðan aðstoðaðir við að endursegja sögurnar þannig að þær virki betur en þær gömlu.

Með því að hugsa öðruvísi opnast möguleikar á annars konar samskiptum. Fólk kemst þá út úr frosnu samskiptamynstri þar sem einstaklingarnir upplifa sig sem fórnarlömb vegna framkomu annarra. Sáttamiðlari er ekki dómari og sáttaferlið er trúnaðarmál þeirra sem taka þátt. Ferlið byggir á að þátttakendur fari í þessa vinnu sjálfviljugir og það kemur fljótt í ljós hvort einstaklingar eru tilbúnir að nálgast vandann á nýjan hátt.

Hafa ber í huga að samskiptavandamál samstarfsfólks geta verið birtingarmyndir neikvæðrar vinnustaðamenningar og stjórnunarstíls sem ýtir undir eða tekur ekki á ágreiningi og óbeinum samskiptum.

Hve langan tíma tekur það alla jafna að fá vinnufélaga til að bæta samskipti sín?

Það getur mikið gerst á stuttum tíma ef fólk er tilbúið að bregðast öðruvísi við en áður. Fólk sem fer þessa leið er að mínu mati hugað og við það eitt að leita aðstoðar er það komið hálfa leið. Eftir einstaklingsviðtöl og sáttafund tekur sáttamiðlari saman minnisblað með niðurstöðum þátttakendanna. Eftir það er haldinn fundur með stjórnanda og lokafundur mánuði seinna. Í lok sáttafundarins tekst flestum að koma sér saman um hvaða skref þurfi að taka til að bæta samskiptin og að láta sér líða betur í vinnunni. Ef það kemur í ljós að þessi leið hentar ekki, þá ráðlegg ég fólki að sækja sér einstaklingshandleiðslu. Eins getur verið gagnlegt fyrir stjórnendur að sækja sér handleiðslu til að fá aðstoð við að taka á ágreiningi og togstreitu á vinnustað.

Geturðu nefnt dæmi um erfið samskipti á milli vinnufélaga þar sem sáttamiðlun hefur reynst vel?

Sáttamiðlun reynist vel þegar fólk er tilbúið til að nálgast samskiptin frá öðru sjónarhorni en því að eingöngu erfiði samstarfsaðilinn verði að breytast eða hætta til að ástandið batni.

Þótt fólk komi frá ólíkum vinnustöðum, litlum, stórum, einkafyrirtækjum, fjölskyldufyrirtækjum, félagasamtökum, stjórnum og opinberum stofnunum, eru sögur þeirra svipaðar. Fólk upplifir sig misskilið, vanmetið og/eða beitt ofríki annarra og margir kvarta undan ókurteisi, virðingarleysi og óbeinum samskiptum sem meðal annars koma fram í slúðri. Einstaklingarnir finna þá fyrir vanlíðan sem rænir þá vinnugleði og starfsgetu. Árangur af sáttamiðlun er að þátttakendur komast að samkomulagi um hvaða skref þurfi að taka til að þeir geti sinnt vinnunni sinni án þess að upplifa vanlíðan.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Þær eru margar. Leitin að tilgangi lífsins eftir Viktor E. Frankl hafði mikil áhrif á mig. Ég las hana aftur þegar pabbi minn féll fyrir henni. Hann keypti mörg eintök því hann gaf bókina jafnóðum þeim sem honum þótti vænt um. Síðustu ár hefur James Hillman verið sálufélagi minn meðal annars í gegnum bækurnar A Terrible Love of War og Kinds of Power.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mörg og misjöfn á mismunandi tímabilum því mér finnst margt skemmtilegt svo sem að dansa og mála. Ég hef alltaf haft áhuga á að hugsa, lesa og læra um hvað það er að vera manneskja. Núna hef ég mest áhuga á að ferðast um Ísland og njóta náttúrunnar á göngu með góðu fólki. Nýtt áhugamál sem freistar er að vera á skaki á lítilli trillu.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Teheran þegar ég átti heima þar, Búdapest þegar ég bjó þar og núna Reykjavík og nágrenni.

Helstu drættir

Nám: Félagsráðgjöf (Lundi), sérhæfing í fjölskyldumeðferð og sáttamiðlun; MA í lausn ágreiningssmála (Bradford) og MA í friðarfræðum (Bradford) og doktorsnám í mannfræði (HÍ – í pásu þar til ég er komin á eftirlaun).

Störf: Sáttamiðlari og stjórnendaráðgjafi hjá Lífi og sál frá 2019. Áður var ég í stjórnendateymi Alþjóðráðs Rauða krossins með ábyrgð á samvinnu/samskiptum við innlenda samstarfsaðila í Evrópu og Mið-Asíu (staðsett í Búdapest) og þar áður í sams konar stöðum í Íran og Írak. Sáttamiðlun var hluti starfsins þegar upp komu erfiðleikar í samstarfi. Auk þess hef ég sinnt kennslu í jafnréttismálum og friðar- og átakafræðum (HÍ og Bifröst), og starfað sem ráðgjafi m.a. fyrir utanríkisráðuneytið og NATO og sem þróunar- og jafnréttisfulltrúi í Afganistan. Á árunum 1993-2008 starfaði ég fyrst sem stjórnandi hjálparstarfs á vettvangi átaka og náttúruhamfara í Sómalíu, Líberíu, Georgíu, Tadsíkistan, Bosníu, Úganda og Indlandi og þar eftir sem yfirmaður alþjóðastarfs Rauða kross Íslands. Áður en ég hóf störf hjá Rauða krossinum starfaði ég sem félagsráðgjafi í fjölskyldu og barnaverndarmálum m.a. við sáttamiðlun.

Fjölskylduhagir: Ég bý ein. Ég á einn son og fjögur barnabörn sem eru mínir gleðigjafar.