Sif Jóhannsdóttir var nýverið ráðin rekstrarstjóri samskiptafélagsins Aton.JL. Hún hafði undanfarin tvö ár starfað sem ráðgjafi hjá fyrirtækinu.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég elst upp í bókmenningu og bókaútgáfu og hef verið annálaður lestrarhestur alla ævi. Tólf ára var ég komin í Morgunblaðið því ég vann lestrarkeppni á landsvísu. Eina keppnin sem ég hef unnið og er stolt af. Ég hef ótrúlega gaman af því að elda, þar fæ ég útrás fyrir sköpunargleðina og er ófær um að elda eftir uppskrift, breyti henni alltaf smá í hvert skipti. Ég fylgist líka vel með veitingastöðum og er dugleg að fara út að borða.

Tímafrekasta „áhugamálið“ mitt er að skapa vettvang fyrir fólk til að tengjast og gleðjast og koma fólki á óvart. Ég sameinaði þetta allt þegar ég stofnaði ásamt æskuvinkonu minni, Sylvíu Kristínu Ólafsdóttur, Skemmtifélagið Dollý í svartasta Covidinu og er nafnið óður til Dolly Parton. Skemmtifélagið Dollý miðar að því að skapa vettvang fyrir konur til að gera hluti fyrir sjálfa sig. Við höfum farið í dekurferð á Úlfljótsvatn, borðað hágæðamat, farið í laxveiði og fleira – útgangspunkturinn er alltaf gleðin – en söngkonan Dollý hefur einmitt mikið fjallað um gleðina og náð ótrúlegum frama en haldið í öll sín „kvenlegu“ einkenni. Það hefur oft verið erfitt, samhliða fjölskyldulífi, að forgangsraða mér og Dollý-hópurinn hefur skapað þann vettvang í mínu lífi, þar er ég í hópi kvenna að forgangsraða sjálfri mér.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ég hef ávallt laðast meira að skáldskap – sæki í að gleyma mér í góðri skáldsögu – en sú bók sem hefur haft mest áhrif á mig er Ég lifi, eftir Martin Gray. Þetta er sannsöguleg saga pólsks gyðings í seinni heimsstyrjöld. Martin horfir á eftir allri fjölskyldu sinni í fangabúðir nasista, lifir einn af þær hörmungar, flyst til Bandaríkjanna og hefur þar nýtt líf en enn á ný dynja hörmungar yfir. Lærdómurinn af lestrinum er mikill, um hversu seig við mannfólkið erum, hversu mikil aðlögunarhæfni okkar er og það er ótrúlegt hvaða storma við getum staðið af okkur. Fyrst og síðast finnst mér lífið snúast um viðhorf og hef reynt eftir fremsta megni að líta lífið björtum augum.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Í fyrirtæki eins og okkar sem byggir rekstur sinn á útseldum tíma er mesta áskorunin alltaf að gefa sér tíma til að sinna innri starfsemi. Með auknum verkefnafjölda og fleira starfsfólki ásamt breyttu vinnuumhverfi, þar sem margir kjósa nú að vinna meira í fjarvinnu, verður mikilvægara að huga að innra skipulagi og þar eigum við mikil tækifæri til að efla okkur enn frekar. Mitt verkefni verður að leiða þá vinnu í samstarfi við okkar fólk. Við vinnum í teymum í okkar verkefnum og gerum það einnig í innri málum og viljum sækja þekkinguna til hópsins sem starfar hjá fyrirtækinu.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Ég elska að ferðast og hef forgangsraðað því í mínu lífi. Á ferðalögum vil ég rölta stefnulaust um en er þó búin að kynna mér hvar ég fæ besta kaffið, besta matinn og besta kraftbjórinn áður en ég fer. Uppáhaldsborgin mín er Los Angeles. Ég bjó þar í tæp þrjú ár, frá 2013 til 2016, og hef heimsótt borgina reglulega frá því ég flutti heim aftur. Borgin er ótrúlega fjölbreytt og mikil gróska þar. Maturinn er ótrúlegur – bestu ávextir og grænmeti sem ég hef smakkað, geggjuð kaffihús og frábær veitingahús. Veðrið er stöðugt, yfirleitt ekki of heitt en aldrei kalt, frábær listasöfn og hægt að lifa strandarlífi og menningarlífi samtímis.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Við erum ýmist fjögurra eða sex manna fjölskylda sem þýðir að morgnarnir einkennast mikið af því að koma öllum á fætur. En ég byrja daginn alltaf eins, við maðurinn minn náum hálftíma tvö ein saman yfir fyrstu kaffibollum dagsins. Mikilvæg kyrrðarstund því svo rúllar allt af stað. Svo kem ég krökkunum í skólann og líður eins og ég sé búin að sigra heiminn þegar ég kem í vinnuna ef við náðum öll á réttan stað á réttum tíma.

Helstu drættir

Nám: BA í frönsku og bókmenntafræði. Verkefnastjórnun, diplóma, UCLA. MBA-gráða frá Háskólanum í Reykjavík. Breytingastjórnun, diplóma, Harvard.

Störf: Lengst af hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu og síðar Réttindastofu Forlagsins. Ráðgjafi hjá Aton.JL frá 2019 og nú rekstrarstjóri fyrirtækisins.