Hjalti Jónsson hefur verið framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar í níu ár en þar áður var hann markaðsstjóri stofunnar í sex ár. Hjalti segir að það sé sífelld áskorun að skapa og viðhalda umgjörð og fyrirtækjamenningu sem laðar að hæfileikaríkt fólk.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef mikla ánægju af útivist og göngum um fjöll og firnindi. Þá hef ég stundað skíði frá barnsaldri. Sæki í laxveiði á sumrin og myndi sjálfsagt teljast frístundagutlari í golfi þótt árangurinn láti eitthvað á sér standa. Ferðalög með fjölskyldunni skipa sinn sess, stundum á framandi slóðir. Ég hef einnig mjög gaman af matargerð og eyði talsverðum tíma í eldhúsinu, sérstaklega um helgar.

Hvernig er morgunrútínan?

Ég vakna alla jafna rétt fyrir klukkan sjö á morgnana. Fyrsta stopp er kaffivélin. Drekk svona tvo til þrjá espresso-bolla til að koma mér í gang, fæ mér léttan morgunverð og fletti blöðunum. Tvo morgna í viku á ég svo stefnumót við einkaþjálfarann sem gerir sitt besta til að halda mér í þokkalegu standi. Þá hef ég verið svo heppinn að hafa félagsskap af krökkunum okkar í morgunumferðinni þar sem ég hef skutlað þeim í skólann á leið til vinnu í gegnum árin.

Hvaða ráðstefnu eða fyrirlestur sóttir þú síðast?

Gallup stóð fyrir ráðstefnu í Hörpu nú í haust undir yfirskriftinni „Innsýn í framtíðina“. Þar var meðal annars áhugaverður fyrirlesari frá „Trend Watching“ sem veitti innsýn í lykil-trend komandi árs. Þá var einnig rýnt í breytingar á viðhorfum, neyslu og hegðun Íslendinga sem er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að fylgjast með.

Hver er bókin sem þú ert að lesa eða last síðast?

Oftar en ekki er ég með fleiri en eina bók í gangi. Núna er ég að lesa bókina Factfulness: Ten Reasons We’re Wrong About the World eftir Hans Rosling. Ekki laust við að hún fylli mann örlítilli bjartsýni og trú á mannkynið og framtíðina. Þá er ég líka að glugga í bókina The Churchill­ Factor sem er listavel skrifuð af Boris Johnson.

Hvað er það skemmtilegasta við starfið?

Umhverfið á auglýsingastofu er hratt, fjölbreytt og krefjandi og segja má að engir tveir dagar séu eins. Það eru forréttindi að fá að vinna með kláru og skemmtilegu fólki í skapandi umhverfi. Starfinu fylgja mikil persónuleg samskipti og það er gaman að takast á við að leysa úr ólíkum viðfangsefnum og vandamálum með okkar viðskiptavinum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í starfinu?

Að skapa og viðhalda umgjörð og fyrirtækjamenningu sem laðar að hæfileikaríkt fólk og nærir þetta skapandi umhverfi er sífelld áskorun. Þetta snýst allt um fólkið. Þá er mikilvægt að fylgjast vel með þróun og breytingum í ytra umhverfinu.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrarumhverfinu í dag?

Við höfum á undanförnum árum fundið mikið fyrir kostnaðarhækkunum vegna launaþróunar. Þetta er sá kostnaðarliður sem vegur langþyngst í rekstrinum. Það er því mikilvægt að vera með fyrirtækið rétt stillt af til að mæta þörfum okkar viðskiptavina en á sama tíma að vera ekki með mikla umframgetu í húsinu. Þetta getur reynst snúið.

Hvaða breytingar sérðu fyrir þér í rekstrarumhverfinu á komandi árum?

Örar og miklar tæknibreytingar hafa á stuttum tíma haft í för með sér umtalsverðar breytingar á lífsstíl og neysluháttum fólks. Nýir keppinautar eru að koma inn á markaðinn og samkeppnin mun harðna. Þeim sem ná að vinna vel með tækni, úrvinnslu gagna og greiningu og samþætta við skapandi markaðssetningu mun farnast vel.

Helstu drættir

Nám:

MBA frá Northwestern Univers­ity, Kellogg School of Management, með áherslu á stjórnun og stefnumótun, markaðsmál og fjármál.

B.Sc. frá Florida International University með áherslu á markaðsmál og alþjóðaviðskipti.

Störf:

Framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar frá 2009.

Markaðsstjóri Íslensku auglýsingastofunnar 2003-2009.

Framkvæmdastjóri Útgáfufélags DV 2001-2003.

Markaðsstjóri Nóa Síríus 1996-2001.

Fjölskylduhagir:

Er giftur Jóhönnu Andreu Guðmundsdóttur lífeindafræðingi. Eigum þrjú börn á aldrinum 17-29 ára, þau Jón Andra, Svölu Rakel og Hjalta Dag. Fyrsta barnabarnið, Tómas Ingi, fæddist svo í vor.