Einar Björn Árnason, yfirmatreiðslumaður hjá Einsa Kalda í Vestmannaeyjum, er með mörg járn í eldinum sem tengjast matargerð. Hann segir það mikil forréttindi að fá að vinna við áhugamálið.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Fjölskyldan, vinir, matreiðsla og fótbolti.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ég les nú ekki mikið en á gríðarlega stórt safn af matreiðslubókum og get týnt mér í þeim.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Heima í Eyjum vorum við hjá Einsa Kalda að enda við að elda og skemmta fólki á Lundaballinu, sem er einn stærsti matarviðburður okkar Eyjamanna. Svo tókum við okkur saman – ferðaþjónustu­aðilar, fiskframleiðendur og fleiri – og bjuggum til matarhátíð sem ber heitið Matey.

Stærsta verkefnið hjá mér var þó þegar ég fór fyrir hönd Íslandsstofu til Barcelona og kynnti saltfisk. Síðast en ekki síst er ég búinn að vera í mjög spennandi verkefni í samstarfi við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum. Við erum að þróa pækilaðferð til að varðveita fiskinn enn betur fyrir útflutning. Það veltur nefnilega margt á íslenska sjávarútveginum og nauðsynlegt að vera á tánum.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Það eru góðir tímar fram undan hjá okkur. Við erum að fara að taka á móti stórum hópum á veitingastaðnum okkar, Einsa Kalda. Svo eru það auðvitað jólakvöldin sem eru alltaf gríðarlega vinsæl. Ég hlakka til þess.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Þetta er smá snúin spurning fyrir mig. Vonandi verð ég heilsuhraustur. Það hefur gengið mjög vel hjá mér í því sem ég hef verið að taka að mér og ég er svo lánsamur að eiga yndislega fjölskyldu og frábært starfsfólk og vini. Ég stofnaði Einsa Kalda árið 2008 og það hefur nánast verið stanslaus vertíð síðan.

Það kannski hefur tekið sinn toll því ég lenti í erfiðum veikindum. Ég greindist með lungnakrabbamein í byrjun árs 2021 og fór í stóra aðgerð og svo í lyfjameðferð og það tók mikið á. Sem betur fer er þessari lífsreynslu vonandi lokið.

Ég ætla mér því bara að njóta þess að lifa og fagna öllu sem ég er að gera hverju sinni.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ég hreinlega sé mig ekki fyrir mér í öðru starfi en að vera í kokkagallanum. Það eru svo mikil forréttindi að fá að vinna við áhugamálið sitt. Annars finnst mér gaman að vinna með tölur og svo finnst mér gaman að gefa af mér.

Kannski væri ég bara kennari.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Mér finnst London æðisleg. Góðir veitingastaðir og svo er besta knattspyrnuliðið þar. Arsenal er allan daginn málið. Flórens og Barcelona gera líka mikið fyrir mig.