Brynjólfur Erlingsson hefur í yfir tvo áratugi sérhæft sig í að vinna upplýsingar úr gögnum.

Hann hefur starfað í rúm þrettán ár í tölvuleikjabransanum. Leitt teymi og verkefni fyrir fyrirtæki á borð við Mojang (Minecraft), EA Dice (Battlefield), Paradox (Crusader Kings) og CCP.

Brynjólfur situr í dag í framkvæmdastjórn sænska leikjafyrirtækisins Toca Boca, sem er eitt stærsta fyrirtæki heims í gerð stafrænna leikfanga fyrir börn með yfir 70 milljónir notenda víðs vegar um heim. Hann situr líka í varastjórn Solid Clouds á Íslandi, sem er þessa dagana að framleiða nýjan leik sem nefnist Starborne Frontiers.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Verkefni sem ég er að vinna með íslenska tölvuleikjafyrirtækinu Solid Clouds. Teymið er gríðarsterkt og hraðinn mikill.

Leikurinn Starborne Frontiers gæti gert stóra hluti. Ég er að hjálpa teyminu að skapa ítrunar- og bestunarferla í gegnum prófanir og gagnavinnslu. Það hefur sýnt sig að þau fyrirtæki sem vinna á þennan hátt eru þau sem skara fram úr og Solid Clouds er að setja mikinn fókus á þetta.

Hvers konar stjórnunarstíl hefurðu tileinkað þér og hvers vegna?

Ég tala mjög opið við starfsfólkið og opna strax í byrjun á að ræða hvernig fólki líður, helst í einstaklingssamtölum.

Mér finnst mikilvægt að ég viti hvernig öllum líður og passa mig á að reyna ekki að dæma neina ef þeir eiga erfiða viku. Ég lít á það sem hlutverk stjórnanda að fjarlægja hindranir, frekar en að kafa ofan í hvernig fólk vinnur vinnuna sína.

Ef einhver er ekki að standa sig þá fæ ég alltaf að vita það í einstaklingssamtölum. Þegar það gerist þá vil ég líka vinna með fólki í að laga það í stað þess að setja neikvæðan fókus á vandamálið.

Einnig finnst mér mikilvægt að lyfta upp greiningum eins og einhverfuröskun eða athyglisbresti. Ég trúi því að öllum greiningum fylgi kostir sem þarf bara að virkja og vinna með, enda er stór hluti fólks í leikjaiðnaðinum með alls konar greiningar sem virka bara mjög vel þar.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?/Hvernig er Ísland statt þegar kemur að tölvuleikjum?

Verð vonandi ennþá í leikjaiðnaðinum og helst að vinna með mörgum fyrirtækjum.

Sérstaklega þætti mér gaman að nota mína reynslu að utan til að vinna með fleiri íslenskum fyrirtækjum. Það er ákveðinn kraftur og hraði með miklu sköpunarkryddi sem einkennir íslensk leikjafyrirtæki. Fólk er opið, óheflað, duglegt og skemmtilegt.

Ég vildi óska að fleiri fyrirtæki myndu spretta upp hér í þessum bransa og að meira væri gert til að hjálpa þeim að laða að erlenda sérfræðinga.

Einnig fyndist mér mikilvægt að hér verði sett upp nám á háskólastigi í tölvuleikjagerð og gagnavísindum. Þetta eru þeir tveir heimar sem ég vinn í alla daga og sé gríðarlegan vöxt í næstu ár og áratugi. Ísland hefur alla möguleika á að skapa sér sérstöðu en til þess þarf að byggja upp grunninn í gegnum skólana. n