María Björk Einarsdóttir starfar sem fjármálastjóri Eimskips. Hún segir að hún reyni að samtvinna samveru með fjölskyldunni öðrum áhugamálum eins og ferðalögum, útivist og fluguveiði.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Samvera með fjölskyldunni er mjög fyrirferðarmikil þessa dagana, enda með tvö ung börn sem maður vill forgangsraða í frítímanum. Maður reynir að samtvinna hana öðrum áhugamálum, eins og ferðalögum, útivist og fluguveiði. Ég les líka mikið af bókum og greinum og hlusta á hlaðvörp til að afla mér fróðleiks og þekkingar. Nýjasta áhugamálið er svo draumahúsið sem við fjölskyldan keyptum á árinu, en markmiðið er að gera það upp á næstu árum sem verður risavaxið verkefni.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Það er ekki spurning að það er sjálfsævisaga Malcolm X, sem er stórkostlegt ritverk um ótrúlegan og umdeildan leiðtoga. Ég fyllist alltaf innblæstri þegar ég les frásagnir fólks sem hefur mætt miklu mótlæti en staðið uppi sem sigurvegarar, og ég las þrjár slíkar bækur á árinu. Born a crime eftir grínistann Trevor Noah sem segir frá uppvexti sínum undir Apartheid í Suður-Afríku. Can’t hurt me eftir David Goggins sem ólst upp við heimilisofbeldi, kynþáttahatur og fátækt en braust til ótrúlegra metorða í sérsveitum bandaríska hersins og er einn öflugasti utanvegahlaupari heims, og Educated eftir Tara Westover en hún segir frá uppvexti sínum sem strangtrúaður mormóni í Idahofylki. Án þess að hafa fengið nokkra formlega grunnmenntun barðist hún fyrir því að komast í háskólanám og er hún í dag virtur fræðimaður með doktorsgráðu frá Cambridge.

Hver er helstu verkefnin fram undan?

Ég kom til Eimskips fyrir þremur mánuðum síðan og hef fókusað á að kynnast rekstrinum og því frábæra fólki sem hér starfar. Þar er ennþá af nægu að taka því starfsemin er gríðarlega fjölbreytt og teygir sig víða um heim, en við erum með starfsfólk í tuttugu löndum.

Fyrstu vikurnar hafa að miklu leyti farið í að vinna að fjárhags- og viðskiptaáætlun fyrir næsta ár sem hefur verið ótrúlega lærdómsríkt ferli. Fjöldi manns kemur að áætlunargerðinni, sem hefur líklega aldrei verið jafn krefjandi og nú, en eins og flestir vita eru aðstæður á alþjóðlegum flutningamörkuðum fordæmalausar. Á nýju ári verður helsta verkefnið að framfylgja því plani sem hefur verið lagt upp með, en á sama tíma að vera tilbúinn til þess að sveigja af leið og bregðast við nýjum og óvæntum áskorunum. Flutningamarkaðurinn er ótrúlega dýnamískur og það er nauðsynlegt að búa yfir snerpu og sveigjanleika til þess að mæta kröfum viðskiptavina. Það er ótrúlega ríkur þjónustukúltúr innan fyrirtækisins og gríðarmikil þekking og reynsla sem hefur skipt sköpum í þessum óvenjulegu aðstæðum.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Það er erfitt að spá svona langt fram í tímann, en faglega vil ég ennþá vera að læra, þróast og skora sjálfa mig á hólm. Ég vona líka að ég verði búin að halda brúðkaupið okkar sem hefur verið frestað í þrígang vegna Covid, en er sem stendur á dagskrá 2022

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Stórborgir á meginlandi Evrópu eru almennt í uppáhaldi hjá mér og það er erfitt að gera upp á milli. En ætli ég segi ekki París þar sem það er fyrsta borgin sem ég heimsótti með unnustanum. Ég er líka mjög hrifin af gömlum borgum Austur-Evrópu, bæði Búdapest og Prag eru í uppáhaldi, þær eru svo rómantískar. n

Helstu drættir

Fyrri störf:

Sérfræðingur hjá ­Íslandsbanka 2012-2013.

Sérhæfðar fjárfestingar hjá GAMMA Capital Management 2013-2014.

Framkvæmdastjóri Ölmu íbúðafélags 2014-2021.

Nám:

B.Sc. í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2012.

Próf í verðbréfaviðskiptum.

Fjölskylduhagir:

Trúlofuð Ellerti Arnarsyni, sérfræðingi í eignastýringu, eiga þau saman tvö börn, Einar Örn þriggja ára og Írisi Tinnu átta mánaða.