Hödd Vilhjálmsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri almannatengslafyrirtækisins KVIS, segir að fjallgöngur séu eitt það besta sem hún veit um. Hún er árrisul og er ávallt vöknuð fyrir klukkan 6.00.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Fjallgöngur eru eitt það besta sem ég veit um. Frábær leið til að kúpla mig aðeins út og fá súrefni, útrás og hugarró – allt í einum pakka. Ég fór 65 sinnum á Esjuna á síðasta ári, en ég held að ég fari nú eitthvað sjaldnar á þessu ári, þar sem ég er víst búin að lýsa því yfir að ég ætli að sjá magavöðvana á mér aftur fyrir árslok. Ég tek það þó fram að mér dugar alveg að sjá glitta í eins og einn vöðva einhvers staðar á þessu svæði. Við skulum alveg róa okkur.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég er yfirleitt komin fram úr fyrir klukkan 6 og þá er það alltaf kaffibolli með kollageni og sirka hálftími í ítölskukennslu í Duolingo. Á kaffibolla númer tvö rúlla ég yfir tölvupósta og fréttamiðla. Svo er það sturta og að koma mér og mínum út í daginn.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Sú bók sem hefur haft hvað mest áhrif á mig heitir Adult Children of Emotionally Immature Parents. Ég held að það sé bók sem öllum er hollt að lesa til að skilja sig og sína betur, sættast við fortíð og halda áfram inn í framtíð. Ég hágrét, hló og átti ótrúlega mörg svona „ahhh, auðvitað!“ móment við lesturinn. Hún setti lífið í samhengi.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Fyrir utan að gera magaæfingar þá er blessunarlega gott að gera í vinnu og ég er í mörgum spennandi verkefnum þar. Ég ákvað einmitt að leggja mikinn fókus á vinnuna á þessu ári, sem er ekkert nema jákvætt, þar sem ég hef mjög gaman af henni og það eru auðvitað ekkert nema forréttindi.

Hvar sérðu þig eftir tíu ár?

Ég sé mig fimmtuga, hlæjandi og hamingjusama með dætrum mínum og því góða fólki sem ég hef valið í lífinu og það mig á móti. Sterk vinátta getur déskotann fært fjöll. Ég verð ennþá að vinna við það sem ég geri núna – þó líklega með smá tvisti. Ég verð líka búin að skrifa nokkrar bækur og mér þætti auðvitað alveg afskaplega vænt um að þið mynduð kaupa þær og lesa. Ég elska að skrifa og það er ótrúlegt hvað það er hreinsandi að koma tilfinningum sínum og hugsunum á blað – eða öllu heldur á tölvuskjá.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Eftir að hafa gengið til fjölda sálfræðinga og þerapista í tugi ára er ég orðin heilluð af faginu og les bækur því tengdar mér til fræðslu og skemmtunar. Ég er ekkert endilega viss um að ég fari ekki í sálfræðinám. Það nám kæmi sér mjög vel fyrir lífið og eins mína vinnu þar sem maður er á köflum í nokkurs konar sáluhjálp. Fjölmiðlaráðgjafi, almannatengill, lögfræðingur, rithöfundur og sálfræðingur. Já, svei mér þá – það er ekkert víst að þetta klikki.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Uppáhaldsborgin mín er líklega New York en uppáhaldslandið mitt er allan daginn Ítalía og þá sérstaklega litlir bæir víða um landið. Umhverfið og orkan á Ítalíu gefur manni hlýju í hjartað.

Helstu drættir

Nám:

BA-próf og mag. jur.-gráða í lögfræði frá Háskóla Íslands.

Störf:

Almannatengill og lögfræðingur hjá KVIS.