Sara Lind Guðbergsdóttir, sem munstraði sig nýverið til Ríkiskaupa og gegnir þar starfi sviðsstjóra stjórnunar og umbóta, hleypur utan vegar ásamt vinkonum og kann að meta gott rósakampavín.

Hvers vegna ákvaðstu að þýða bókina Shorter eftir Alex Soojung-Kim Pang sem fjallar um styttingu vinnuvikunnar?

Við síðustu kjarasamningsgerð átti ég mörg góð samtöl við aðila vinnumarkaðarins um styttingu vinnuvikunnar og hvernig hægt væri að ná fram markmiðum hennar hjá stofnunum ríkisins, án þess að framlegð minnkaði og starfsfólk yrði fyrir launaskerðingu.

Ég rakst á bók dr. Alex Soojung-Kim Pang, í leit minni að rannsóknum og farsælum fordæmum hjá fyrirtækjum og stofnunum sem höfðu stytt vinnuvikuna.

Ástæða þess að ég ákvað að ráðast í þýðingu á bókinni er sú að nálgun Alex á efninu talaði til mín og ég fann að hún gat orðið vitundarvakning, bæði hjá starfsfólki og stjórnendum, og stutt við markmið þessa umbótaverkefnis sem stytting vinnuvikunnar sannarlega er.

Hver er lykillinn að styttingu vinnuvikunnar samkvæmt bókinni?

Lykillinn að farsælli styttingu vinnuvikunnar er að stjórnendur og starfsfólk taki höndum saman og endurhanni vinnudaginn og skipulag vinnunnar með það að markmiði að auka skilvirkni og afköst. Með því að leggja mat á árangurinn sem næst af þeim umbótum er hægt að deila ábatanum og gera öllum á vinnustaðnum kleift að njóta ávinningsins sem felst í auknum tíma.

Við hjá Ríkiskaupum erum í miðri vegferð að endurskipuleggja stofnunina, breyta áherslum hennar og vinna að því markmiði að gera Ríkiskaup að raunverulegu hreyfiafli í samfélaginu

Þú tókst fyrir skömmu við nýju starfi hjá Ríkiskaupum. Í hverju felst það?

Ég tók nýverið við nýju starfi sviðsstjóra stjórnunar og umbóta hjá Ríkiskaupum og hlutverki staðgengils forstjóra. Við hjá Ríkiskaupum erum í miðri vegferð að endurskipuleggja stofnunina, breyta áherslum hennar og vinna að því markmiði að gera Ríkiskaup að raunverulegu hreyfiafli í samfélaginu sem leiðir verkefni sín áfram með nýsköpun og umbætur að leiðarljósi. Þetta nýja svið stjórnunar og umbóta annast sameiginleg mál Ríkiskaupa er varða umbætur, nýsköpun og stafræna þróun og stýrir stefnumótun og áætlanagerð sem styður við framtíðarsýnina og markmiðin, ásamt forstjóra. Þá heyra lögfræðileg ráðgjöf og fræðslumál undir sviðið sem og rekstrar- og mannauðsstjórnun.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Á hverju ári, oftast í kringum jól, les ég Ferðin sem aldrei var farin eftir Sigurð Nordal. Frásögnin minnir okkur á að hver dagur í lífinu hefur tilgang og er í eðli sínu undirbúningur fyrir framhaldið, hvert svo sem það er. Í sögunni felst áminning um að í lífinu koma tækifæri til að breyta til betri vegar, finna gleðina í hversdagsleikanum og njóta lífsins fyrir það sem það er.

Á hverju ári, oftast í kringum jól, les ég Ferðin sem aldrei var farin eftir Sigurð Nordal.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég er svo lánsöm að eiga frábærar vinkonur sem á síðustu mánuðum hafa verið að koma mér í hlaupa­gírinn og kynna mig fyrir kröftum utanvegahlaupa og brekkuspretta!

Þá gefur það mér mikið að elda góðan mat fyrir skemmtilegt fólk og Milanese með góðu rósakampavíni klikkar aldrei.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Orkan sem ég upplifi í hvert sinn þegar ég sæki Jerúsalem heim er ólýsanleg. Borgin er sérstök fyrir margar sakir, sér í lagi söguna, en fjölbreytileikinn í samfélaginu og hin frábæra matarmenning heilla mig mest.

Helsti drættir


Nám: Meistarapróf í lögfræði frá HÍ.

Störf: Sviðsstjóri stjórnunar og umbóta hjá Ríkiskaupum frá 2021, aðalmaður í samninganefnd ríkisins við kjarasamningagerð samhliða reglubundnum störfum hjá Kjara- og mannauðssýslu 2015-2021, lögfræðingur Kjara- og mannauðssýslu 2014-2021, lögfræðingur hjá Ljósinu, endurhæfingarmiðstöð fyrir krabbameinsgreinda og aðstandendur þeirra 2013-2014. Stjórnarmaður í Lífeyrissjóði bænda 2015-2019. Stjórnarmaður í Vinnueftirliti ríkisins frá 2014.

Fjölskylduhagir: Gift Stefáni Einari Stefánssyni fréttastjóra. Tveir synir, Tómas Björn, 4 ára og Jónas Rafnar, 2 ára.