Anna Garðarsdóttir vinnur við stærðfræðilega líkanagerð hjá Alvotech. „Þótt ég sé B-týpa í grunninn hef ég náð að venja mig á að vakna snemma og byrja daginn af krafti. Ég vakna klukkan 5.30 og byrja á því að hreyfa mig í 30-60 mínútur,“ segir hún.

Hvað felst í nýja starfinu?

Ég starfa í frábæru teymi vísindamanna og sérfræðinga sem vinna að því að innleiða nýjungar í tækni og aðferðum til að bæta þróunarferlið þannig að það verði sem hagkvæmast og skilvirkast.

Markmið Alvotech er að gera líftæknilyf aðgengileg fyrir alla sem þurfa á þeim að halda. Þess vegna er mikilvægt að þetta ferli sé sem hagkvæmast en líftæknilyf eru afar dýr í þróun og framleiðslu. Mitt hlutverk er að nota stærðfræði- og gagnalíkön til að spá fyrir um ýmsa þætti ferlisins og fá upplýsingar sem erfitt eða ómögulegt er að mæla beint. Þannig er hægt að fækka tilraunum og fá betri innsýn inn í það flókna fyrirbæri sem þróun líftæknilyfja er. Það er virkilega spennandi að taka þátt í uppbyggingu nýs atvinnugeira sem byggir á hátækni. Við erum í nánu samstarfi við Háskóla Íslands sem óneitanlega skapar einnig grundvöll fyrir framþróun á þessu sviði hér á Íslandi.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Mín helstu áhugamál eru tækni og nýsköpun og ég tel mig vera mjög heppna að fá að starfa við það hér heima á Íslandi. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki eins og Alvotech taki ákvörðun um að hafa aðsetur á Íslandi en ekki annars staðar í heiminum þar sem vinnuafl er eflaust ódýrara.

Þar að auki fylgist ég með fótbolta og spila með rosalegum old-girls kempum á mánudögum í Sporthúsinu. Það er hrikalega gaman og yfirleitt hápunktur vikunnar.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég tek morgunrútínuna mína mjög alvarlega og er langt leidd í pælingum varðandi hana. Þótt ég sé B-týpa í grunninn hef ég náð að venja mig á að vakna snemma og byrja daginn af krafti. Ég vakna klukkan 5.30 og byrja á því að hreyfa mig í 30-60 mínútur. Því næst tek ég heitan og kaldan pott eða sturtu, fæ mér morgunmat og skipulegg daginn áður en ég kíki á tölvupóstinn eða aðra miðla. Ég viðurkenni reyndar að það þarf lítið til að ég detti úr þessari rútínu og finnst erfiðara að fylgja henni á sumrin. En það er magnað hvað það hefur mikil áhrif að vakna snemma og eiga tíma með sjálfum sér áður en dagurinn hefst. Mér finnst ég ná betri einbeitingu og finn fyrir minni streitu.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Ég hef lesið margar áhrifaríkar bækur en það eru tvær sem standa upp úr: Letting Go eftir David Hawkins sem er á andlegu nótunum en mjög holl og góð lesning fyrir alla. Síðan er það 5AM Club eftir Robin Sharma en hún fjallar um mikilvægi þess að byrja daginn snemma og á alla sök á þessari morgunrútínu-áráttu minni.

Hvers hlakkarðu mest til þessa dagana?

Ég er bara spennt fyrir sumrinu og lífsins án takmarkana. Það þarf ekki mikið til að gleðja mann þessa dagana, ég fór grímulaus í matvöruverslun um daginn og það var veisla. Nú eru bjartari tímar fram undan og ég hlakka til að eyða sumrinu á Íslandi með fjölskyldu og vinum.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Uppáhaldsborgin mín er París en ég fór þangað í æðislega helgarferð fyrir nokkrum árum og þurfti ekki meira til að heillast af henni. Svo þykir mér auðvitað vænt um Kaupmannahöfn þótt ég hafi verið tilbúin að flytja aftur heim. Ég kynntist yndislegu fólki, fékk frábæra reynslu og á góðar minningar þaðan. ■

Helstu drættir

Nám: B.Sc. Rekstrarverkfræði úr Háskólanum í Reykjavík. M.Sc. Mathematical Modelling and Computation úr DTU, Kaupmannahöfn (Danmarks Tekniske Universitet).

Störf: Verkfræðingur hjá Alvotech (Process Technology & Innovation) frá nóvember 2020. Verkfræðingur í rannsóknum og þróun hjá Trackman í Kaupmannahöfn frá júní 2017 til október 2020.

Fjölskylduhagir: Einhleyp.