Helga Guðrún Vilmundardóttir, framkvæmdastjóri Stáss arkitekta, segir að það hætti til að arkitektar séu fengnir of seint að borði í verkefnum. Skorti þá oft faglega reynslu og yfirsýn sem geri verkefnið erfiðara og auki kostnað. Stáss hannaði höfuðstöðvar íslenska hjólaframleiðandans Lauf Cycling sem verða opnaðar innan skamms. Í fyrra tók arkitektastofan skrifstofur Festar á Dalvegi í gegn.

Hvað skiptir höfuðmáli við hönnun á skrifstofuhúsnæði?

Við upphaf hvers verkefnis er gríðarlega mikilvægt að undirbúa það vel, greina þarfir allra þeirra hópa sem koma til með að nota rýmið og reyna að spá í alla notkunarmöguleika, en einnig að hugsa út frá mögulegum vexti og breytingum. Leggja þarf áherslu á uppbyggingu rýma og flæði þeirra á milli. Sveigjanleiki í notkun rýma er sérstaklega mikilvægur í ljósi þess hvernig starfsumhverfi getur breyst fljótt og er það sérstaklega eitthvað sem við höfum fundið núna á tímum heimsfaraldursins. Með góðum undirbúningi og faglegri nálgun næst starfsumhverfi þar sem starfsmönnum líður vel. Aukin starfsánægja eykur framleiðni og það er klárlega hagur allra fyrirtækja. Það er því góð fjárfesting fyrir fyrirtæki að fara í vel undirbúnar og vel ígrundaðar breytingar þar sem hönnun er stýrandi þáttur.

Á hverju flaska margir við hönnun á skrifstofurými?

Það er okkar reynsla að arkitektar eru fengnir of seint að verkefnum. Rokið er í breytingar og er fyrst hringt í arkitektinn eftir að farið er af stað. Þá vantar oft faglega reynslu og yfirsýn sem gerir verkefnið erfiðara og eykur kostnað.

Hvaða verkefni hefur arkitektastofan Stáss lokið nýlega og hver eru í farvatninu?

Á síðasta ári kláruðum við að taka skrifstofur Festar á Dalvegi í gegn og var það mjög gott verkefni í alla staði. Frábært samstarf við alla hlutaðeigendur sem skilaði sér í flottu verkefni sem almenn ánægja er með. Við höfum haldið áfram að vinna fyrir Festi og N1 og erum í mjög skemmtilegri vegferð með þeim við að endurhanna bensínstöðvarnar þeirra með áherslu á jákvæðari heildarupplifun fyrir viðskiptavini N1.

Við vorum að klára að teikna 300 fermetra mannvirki á Snæfellsnesi. Þar lögðum við mikla áherslu á arkitektónísk gæði mannvirkisins þar sem náttúran verður dregin inn í bygginguna og stórbrotið landslagið rammað inn. Framkvæmdir eru að hefjast um þessar mundir.

Einnig höfum við verið að vinna mjög áhugavert verkefni, hönnun á gjaldtökusalernum, í samvinnu við Sanna landvætti. Er það liður í að leysa salernisvanda í tengslum við aukningu ferðamanna. Fyrsta húsið var sett niður á Laufskálavörðu á síðasta ári og er nú á dagskrá hönnun á fleiri sambærilegum salernishúsum sem staðsett verða víðs vegar um landið þar sem vöntun er á aðstöðu fyrir ferðamenn.

Á næstu vikum verða einnig opnaðar nýjar höfuðstöðvar íslenska hjólafyrirtækisins Lauf Cycling. Þar er mikill metnaður á ferð og er ég mjög spennt að sjá útkomuna.

Hver er uppáhaldsborgin þín?

Það er klisja en það er New York. Ég var ótrúlega skeptísk á þessa borg fyrst þegar ég kom þangað, var bara ekki að trúa því borgin gæti verið svona frábær eins og fólk sagði. En ég var frá mér numin þegar ég kom þangað fyrst. Reyndar var ég svo heppin að fá bestu mögulegu leiðsögn um borgina frá vinkonu minni sem bjó þarna og þekkti borgina eins og lófann á sér og jók það klárlega á upplifunina.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef áhuga á skíðamennsku, laxveiði, hálendisgöngum, hestum, hjólum, menningu, ferðalögum, skemmtilegu fólki og hlátri.

Flesta morgna byrja ég að hjóla annað hvort inni eða úti, finnst best að klára hreyfingu dagsins snemma á morgnana. Fer svo heim og kem börnunum í skóla og fæ mér svo fyrsta langþráða kaffibolla dagsins á skrifstofunni.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Flesta morgna byrja ég að hjóla annað hvort inni eða úti, finnst best að klára hreyfingu dagsins snemma á morgnana. Fer svo heim og kem börnunum í skóla og fæ mér svo fyrsta langþráða kaffibolla dagsins á skrifstofunni.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Om at opleve arkitektur eftir Steen Eiler Rasmusen. Bókin tæklar flest það sem fellur að vinklum arkitektúrs, eins og dagsljós, loft, rými, samhengi og fleira. Þessi bók er tímalaus klassík.

Helstu drættir

Nám:

Útskrifaðist úr MR 1999. BA gráða í arkitektúr frá Arkitektaskólanum í Árósum 2005. MA, Master of Arts in Architecture frá Det Kongelige kunst­akademiet arkitektskole í janúar 2008 af deildinni „Arkitektúr/þróun byggða í borgum”.

Störf:

Situr í stjórn Arkitektafélags Íslands. Stofnaði eigin teiknistofu, Stáss arkitekta, ásamt Árnýju Þórarinsdóttur árið 2009 og hefur unnið þar sem arkitekt og framkvæmdastjóri. PK arkitektar frá janúar- september 2008, vann meðal annars við hönnun Höfðatorgs. Henning Larsen Architects, Kaupmannahöfn, vann meðal annars við hönnun Hörpu og Háskólans í Reykjavík árin 2006-2007.

Fjölskylduhagir:

Gift Hallgrími Björnssyni, hagfræðingi, fjármála- og rekstrarstjóra hjá Lauf Cycling og þau eiga þrjú börn, Þórhildi 17 ára, Ara 12 ára og Snorra 8 ára.