Guðrún Valdimarsdóttir annast fjármál hjá Sigtúni þróunarfélagi og er fjármálastjóri Hlýju tannlæknastofu sem er ein stærsta tannlæknastofa landsins.

Helstu áhugamál?

Ég er algjör golfsjúklingur og eyði nánast öllum mínum frítíma á sumrin á golfvöllum landsins. Svo reyni ég að komast í golfferðir á vorin og haustin til að lengja tímabilið. Ef ég er ekki úti á golfvelli þá á ég það til að fara í göngur, hjóla eða veiða. Á veturna fer ég á skíði.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Morgunrútínan mín er mjög einföld. Ég drekk ekki kaffi en byrja daginn á vatnsglasi og borða svo ekkert fyrr en um hádegi. Hoppa í sturtu, hendi mér í föt, kem dóttur minni í skólann og mér í vinnuna.

Hvað felst í nýja starfinu?

Uppbygging og breytingar, en ég er púslari og fyrir mér eru slík verkefni eins og að púsla. Allir ferlar, öll kerfi og mannauðurinn með þurfa að falla inn í myndina svo hún gangi upp. Þegar þetta er allt farið að tala saman og rúlla vel þá er heildarmyndin komin, en svo þarf að halda henni við og passa að ekkert púsl týnist. Fram undan eru slík verkefni hjá mér bæði hjá Hlýju tannlæknastofu og Sigtúni þróunarfélagi á Selfossi. Hlýja, sem er ein af stærstu tannlæknastofum landsins, er stofnuð árið 1996 sem Tannlæknastofan Puti. Hjá stofunni vinna í dag 44 starfsmenn, þar af 17 tannlæknar. Stofan býður upp á breiðan hóp sérfræðinga. Þar starfa sérfræðingar í barnatannlækningum, munn- og tanngervalækningum, tannfyllingum og tannsjúkdómafræði ásamt almennum tannlæknum. Hlýja er í dag á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu og rekur einnig stofu í Vestmannaeyjum. Við erum að færa starfsemina í Reykjavík undir eitt þak í nýju húsnæði á 2. hæð í Álfheimum 74. Þar er gert ráð fyrir allt að 22 tannlæknum og tannsmíðaverkstæði. Stækkunum fylgja oft vaxtarverkir og mitt hlutverk verður að koma í veg fyrir þá. Mín helstu verkefni verða fjármál, mannauðsmál, kerfi og ferlar.

Svo kem ég einnig að uppbyggingu á nýjum miðbæ á Selfossi sem er byggður af Sigtúni þróunarfélagi. Þessi miðbær er að rísa við hringtorgið þegar þú kemur yfir brúna og er líka mjög spennandi verkefni. Þar verður hlutverk mitt að megninu til það sama. Stefnt er að því að opna hluta af þessum nýja miðbæ núna í byrjun sumars.

Hvaða áskoranir eru fram undan?

Helstu áskoranir fram undan eru að finna tíma til að halda öllum boltum á lofti, sem gerir verkefnin enn þá skemmtilegri. Einhvern veginn verður manni meira úr verki þegar tíminn er minni og verkefnin skemmtilegri þegar áskoranirnar eru meiri. Svo er það fullnægingin þegar allt er farið að rúlla og maður uppsker árangur erfiðisins.

Nærðu að halda jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs?

Ég get ekki annað en játað það að ég er vinnufíkill og kann ekki almennilega að slaka á. Ef ég á lausan tíma reyni ég alltaf að finna mér eitthvað að gera. Allt mitt nám hef ég stundað með vinnu og háskólanám stundum í rúmlega 100% vinnu. Eftir starf mitt hjá WOW hef ég reynt að setja mér takmörk. Í dag reyni ég að halda jafnvægi á milli vinnu og fjölskyldu með því að taka lengri daga þegar dóttir mín er hjá pabba sínum aðra hverja viku og styttri vinnudaga þá daga sem hún er hjá mér. Það gengur bara nokkuð vel.“

Helstu drættir

Menntun:

Stúdentspróf frá Verslunarskóla Íslands

Löggildur bókari

BSc. í Viðskiptafræði frá HR

MBA frá HR

MSc. í fjármálum fyrirtækja frá HR

Störf:

Blikksmíði og skrifstofa hjá Blikk og Stál síðar Ísloft. Lánafulltrúi, þjónustustjóri, deilarstjóri sölusviðs og síðar framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Kreditkorti. Fjármál og bókhald hjá Viðskiptaráði Íslands. Fjármálastjóri hjá Títan fjárfestingafélagi. Fjármálastjóri WOW air. Fjármálastjóri S9, ODDSSON, JL Holding, Hótel Hildu og JL Hostel. Fjármálastjóri Hlýju tannlæknastofu og fjármál hjá Sigtúni þróunarfélagi.

Fjölskylduhagir:

Fráskilin og á þrjú börn, Daníel 28, Mikael 22 og Kristel 16.