Meðal þeirra sem nýta sér hlutabótaleiðina eru sveitarfélögin, Dalvíkurbyggð, Strandabyggð og Skútustaðahreppur og tvö byggðasamlög, Strætó og Sorpa nýta sér hlutabótaleiðina samkvæmt lista Vinnumálastofnunar sem var birtur í gær.

Þá eru einnig opinberu hlutafélögin Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús og Íslandspóstur á listanum.

Mörg fyrirtæki á listanum starfa í ferðaþjónstu en einnig má finna fjölda íþróttafélaga, veitingafyrirtæki, og líkamsræktarstöðvar, tannlæknastofur, snyrtistofur og verkfræðistofur svo fátt eitt sé nefnt.

Brimborg bílasala, H&M og Miklatorg, eignarhaldsfélag IKEA eru einnig á listanum.

Þá má á listanum finna fjölmiðlafyrirtækin Sýn hf., Birtíng útgáfufélag og Myllusetur ehf, útgefanda Viðskiptablaðsins.

Frumvarp í bígerð með þrengri skilyrðum

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa er nú í vinnslu. Markmið þess er að framlengja hlutabótaleiðina, setja skilyrði um 25% samdrátt í starfsemi vinnuveitanda og skilyrði um 50% starfshlutfall frá og með 1. júlí 2020. Einnig eru lagt til að auka heimildir Vinnumálastofnunar til gagnaöflunar og jafnframt viðurlög við brotum á reglum um upplýsingagjöf.

Þá eru aukin skilyrði lögð til sem gera meðal annars ráð fyrir að vinnuveitandi staðfesti að hann hafi á tímabilinu 1. júní 2020 til 31. maí 2023 ekki í hyggju að greiða út arð, lækka hlutafé með greiðslu til hluthafa, greiða óum­samda kaupauka eða kaupa eigin hlutabréf.

Auðsótt var fyrir flest fyrirtæki að nýta úrræðið þegar það var samþykkt og varð það að sögn Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, til þess að hindra ekki fyrirtæki í neyð í að geta nýtt úrræðið, einnig hefði frumvarpið verið unnið í tímaþröng. Í kjölfarið sættu stöndug fyrirtæki harðri gagnrýni fyrir að nýta hlutabótaleiðina. Drífa Snædal, formaður ASÍ, sagði meðal annars að athæfið væri ósiðlegt og ætti að vera ólöglegt. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gagnrýndi það einnig og sagði „að verið væri að reka rýting í samstöðuna sem kallað væri eftir“ á ríkisstjórnarfundi.

Össur, Skeljungur, Hagar og Festi endurgreiddu þær upphæðir sem þau höfðu þegið eftir að gerðar voru athugasemdir opinberlega við það að fyritækin nýttu sér úrræðið.