Sveitahótelið Hrífunes Guesthouse er til sölu. Það er í eigu hjónanna Höddu Bjarkar Gísladóttur og Hauks Snorrasonar en þau hafa rekið sveitahótelið í rúman áratug.

Hótelið er staðsett í Skaftártungu, milli Víkur og Kirkjubæjarklausturs. Óskað er eftir tilboðum í eignina. Hjónin munu áfram reka ferðaskrifstofu og bjóða uppá sérferðir.

„Reksturinn hefur gengið mjög vel hér undanfarin ár. Vissulega fórum við í gegnum krefjandi tíma í Covid-19 faraldrinum eins og aðrar ferðaþjónustur. Við fengum þó mikið af Íslendingum hingað til okkar undanfarin tvö sumur og því gekk reksturinn vel þrátt fyrir faraldurinn,“ segir Hadda.

Árið 2020 velti fyrirtækið Look North sem heldur utan rekstur hótelsins 57 milljónum króna og hagnaðist um sex milljónir, árið 2019 nam veltan 113 milljónum króna og hagnaðurinn 16 milljónum. Árið 2018 var veltan 113 milljónir og hagnaðurinn 17 milljónir og árið 2017 var veltan 117 milljónir en hagnaðurinn 35 milljónir, samkvæmt ársreikningum fyrirtækisins. Hrífunes Guesthouse hefur verið valið Fyrirmyndar fyrirtæki hjá Creditinfo undanfarin ár.

Heildarstærð bygginga er samtals 634 fermetrar. Hótelið var stækkað umtalsvert með viðbyggingu sem reist var á árunum 2016 til 2017. Alls eru 10 herbergi í nýju byggingunum, öll með sérbaði. Í eldri byggingunum eru tvö herbergi með sameinginlegu baði og auk þess eru tvö herbergi fyrir leiðsögumenn. Þá er 80 fermetra svíta sem yfirleitt er pöntuð langt fram í tímann, að sögn Höddu.

„Bókunarstaðan hér í Hrífunesi Guesthouse er mjög góð og við erum með mikið af pöntunum nú þegar fyrir næsta ár og einnig 2023. Við erum svo lánsöm að vera í viðskiptum við traustar ferðaskrifstofur bæði íslenskar og erlendar. Við höfum lagt alúð við að bjóða upp á persónulega og góða þjónustu sem miðuð er fyrir gesti sem vilja njóta þess besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Lúxusferðaskrifstofurnar sitja um svítuna og hún er afar eftirsótt. Það er engin spurning að eftir þessa viðbætur lyftist hótelið á fínna plan,“ segir Hadda.