Sveinn Kjartansson, matreiðslumeistari og sjónvarpskokkur hættir rekstri veitingastaðar síns, AALTO Bistro í Norræna húsinu, um mánaðamótin. Hann ætlar að söðla um og gerast forstöðumaður matar,- og veitingasviðs Seðlabanka Íslands.

Enginn hefur formlega tekið við veitingarekstri í Norræna húsinu enn.

„Umsóknarfrestur var til 15. ágúst síðastliðinn og við erum með nokkrar spennandi fyrirspurnir. Við erum spennt að sjá hvað tekur við. Húsið stendur fyrir sjálfbærni, skandinavíska hönnun og barnamenningu og við erum opin fyrir jafnvel einhverju allt öðruvísi. Þetta er allt opið eins og er,“ segir markaðsstjóri Norræna hússins, Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir.

„Allir sem reka veitingastað gera það til að hafa lifibrauð af því“

„Eins og staðan er búin að vera eftir síðustu launahækkanir og þessar eingreiðslur og svona þá er reksturinn búinn að vera erfiður hjá mér eins og á mörgum veitingahúsum. Ég ákvað bara að gefa starfsfólkinu mínu þrjá mánuði til að finna sér vinnu og ég sagði upp húsaleigunni og ég er að fara í aðra vinnu,“ segir Sveinn við Fréttablaðið.

„Þetta er vinna myrkranna á milli. Í svona lítilli rekstrareiningu er maður allt í öllu og þó maður hafi gott starfsfólk er þetta rosaleg binding og mikil tímaviðvera og launin mjög lág ef maður reiknar þetta í tímakaupi,“ segir Sveinn sem segir reksturinn undanfarin fimm ár hafa verið lærdómsríkan.

„Fjórða rekstrarárið var þannig að það leit ágætlega út, segir Sveinn sem hafði séð fyrir sér að reka AALTO Bistro lengur, „en síðasta ár hefur verið þungt og ég hafði ekki úthald í meir.“

„Það er líklegra en ekki að það komi eitthvað í staðinn. Þetta er frábær staðsetning og gaman að raka veitingastað og hafa kryddjurtagarð fyrir utan. Þetta er lúxus að því leytinu til en allir sem eru að reka veitingastað eru að gera það til að hafa lifibrauð af því og þegar þær forsendur eru brostnar og maður getur ekki borgað sér laun, þarf að bæta á sig vinnutímum og fara í öll störf og á ekki fyrir reikningum þá er komið að leikslokum.“

„Hef meiri tíma til að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu heima“

„Starfið mitt í seðlabankanum er mjög spennandi og ég lít á það sem tækifæri til að fá að þróa mig áfram sem matreiðslumann á öðrum vettvangi.

Ég hef núna meiri tíma til að prófa eitthvað nýtt í eldhúsinu heima hjá mér og starfsfólkið í Seðlabankanum nýtur vonandi góðs af því,“ segir Sveinn sem lítur bjartsýnn fram á veginn.

Síðasti opnunardagur AALTO Bistro er 29. ágúst.