Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, þarf ekki að víkja sem skiptastjóri WOW Air sem fór í þrot í síðasta mánuði. Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, komst að því í dag að ekki sé ástæða til að víkja Sveini Andra Sveinssyni frá sem skiptastjóra þrotabús WOW Air en Arion banki hafði krafist þess að hann viki vegna vanhæfis.

„Ég taldi þessa niðurstöðu vera borðleggjandi, þannig ég hef ekkert látið þetta trufla mig,“ segir Sveinn Andri í samtali við Fréttablaðið.

Arion banki, einn kröfuhafi WOW Air, hefur átt í ágreiningi við Svein Andra í þó nokkur ár málareksturs sem hann stóð í gegn Valitor, dótturfélagi Arion banka, sem lögmaður fyrirtækjanna Datacell og Sunshine Press Productions. Var þess krafist að Valitor greiði fyrirtækjunum allt að átta milljarða króna, vegna lokunar Valitors á greiðslugátt til Datacell árið 2011.

Hann vissi ekki hvort Arion banki ætlaði að áfrýja málinu til æðri dómstóla en sagði að honum þætti það sérstakt ef svo yrði.

Þorsteinn sjái alfarið um samskipti við WOW

Hann segir að til að koma í veg fyrir frekari ágreining hafi hann og Þorsteinn Einarsson, sem skipaður var skiptastjóri með honum, skipt með sér verkum og að Þorsteinn sjái að mestu um öll samskipti við Arion banka hvað varðar uppgjör úr þrotabúi WOW Air.

„Við ákváðum að skipta með okkur verkum. Að hann sæi alfarið um samskipti við Arion banka og allt sem við kemur bankanum. Þegar skiptastjórar eru tveir, þá auðvitað skipta þeir með sér verkum , en ég held við séum alveg að koma ágætlega til móts við þessar áhyggjur, sem reyndar eru óþarfar,“ segir Sveinn Andri.

Óvenjulegt þrotabú en vinna gengur vel

Hann segir að vinna við gangi vel og að það sé af nógu að taka.

„Það er komið inn mikið magn krafna og það er verið að ná utan um eignir. Fyrstu skrefin í svona er alltaf að ná utan um þetta, tryggja hagsmuni og eignir og jafnframt að halda þétt utan um þær kröfur sem koma, en þetta er óvenjulegt bú að því leitinu til að það kemur mikið magn krafna frá farmiðakaupendum sem hafa ekki getað notað miðana sína. Það er búið að búa til ákveðið kerfi í kringum þær kröfur,“ segir Sveinn Andri að lokum.