Svein­björn Svein­björns­son hefur verið ráðinn fram­kvæmda­stjóri eigna­stýringar Fossa fjár­festingar­banka. Hann mun leiða teymi Fossa í á­fram­haldandi upp­byggingu eigna­stýringar og fjár­festinga­ráð­gjafar til við­skipta­vina bankans.

Hann kemur til Fossa frá Ís­lands­banka þar sem hann hefur starfað síðast­liðin 20 ár og er því með mjög víð­tæka reynslu af fjár­mála­markaði og þjónustu við við­skipta­vini. Síðast­liðin 14 ár hefur hann unnið hjá eigna­stýringu Ís­lands­banka, fyrst sem við­skipta­stjóri í Einka­banka­þjónustu og sem for­stöðu­maður frá 2013. Hann tók svo við sem for­stöðu­maður eigna­stýringar Ís­lands­banka 2018.

Svein­björn er við­skipta­fræðingur frá Há­skóla Ís­lands og með próf í verð­bréfa­við­skiptum. Hann hefur störf hjá Fossum í sumar.

Anna Þor­björg Jóns­dóttir sem stýrt hefur upp­byggingu eigna­stýringar Fossa til þessa mun söðla um og taka við stöðu fram­kvæmda­stjóra nýs lána­sviðs Fossa. Hún mun að auki á­fram leiða þróun á al­þjóð­legu vöru­fram­boði bankans með á­herslu á er­lenda sjóði.

„Undan­farin ár höfum við í Fossum fjár­festingar­banka lagt grunninn að traustri og fjöl­breyttri fjár­mála­þjónustu fyrir við­skipta­vini okkar. Í þeirri vinnu skiptir miklu máli að hafa reynslu­mikið fólk í teyminu sem hefur fram­úr­skarandi þekkingu á fjár­mála­markaði. Því er það mikið á­nægju­efni fyrir okkur í Fossum að Svein­björn gangi til liðs við okkur þar sem hann tekur við keflinu af Önnu Þor­björgu sem hefur lagt grunninn að eigna­stýringu Fossa,“ segir Haraldur Þórðar­son, for­stjóri Fossa fjár­festingar­banka.

Hann segir það einnig vera spennandi tæki­færi fyrir bankann að setja á lag­girnar nýtt lána­svið Fossa á komandi misserum sam­hliða á­fram­haldandi þróun á er­lendu vöru­fram­boði. „Þessar skipu­lags­breytingar eru til þess fallnar að nýta þau tæki­færi sem nýtt starfs­leyfi og aukin um­svif skapa á­samt því að styðja við mark­mið okkar um vöxt á lykils­viðum bankans.“

Anna Þor­björg er hag­fræðingur og fjár­mála­stærð­fræðingur með meistara­próf frá UCLA og USC. Hún býr yfir víð­tækri al­þjóð­legri reynslu á fjár­mála­markaði. Hún var einn stofn­enda World Financial Desk LLC, há­tæknifjár­mála­fyrir­tækis með að­setur í New York. Anna Þor­björg hefur starfað hjá Fossum fjár­festingar­banka síðan 2016 og byggt upp er­lent vöru­fram­boð og eigna­stýringar­svið. Hún hefur starfað í fram­kvæmda­stjórn bankans síðast­liðin þrjú ár.