Hagkerfi heimsins eru nær öll á hnjánum. Ísland er þar engin undantekning og fram undan er mikið verk til að tryggja upprisu lands og þjóðar. Íslenskt hugvit og handverk mun ráða miklu um árangurinn, en ekki síður stefnan sem við tökum í þessum skrítnu aðstæðum.

Á undanförnum vikum hefur komið í ljós að þjóðir heims hugsa fyrst um sjálfar sig þegar hætta steðjar að. Virðiskeðja alþjóðaviðskipta er rofin, vöru- og fólksflutningar eru afar takmarkaðir og alþjóðasamningar eru í hættu. Aðstæðurnar kalla víða á breytt viðhorf, ekki síst hvað varðar sjálfbærni hagkerfa. Skyndilega sjá allir mikilvægi þess að þjóðir geti framleitt mat fyrir sjálfar sig og forgangsröðun fjármuna í þágu heilbrigðiskerfa. Allir virðast sammála um að ríki grípi til umfangsmikilla efnahagsaðgerða, svo hjól samfélagsins snúist þrátt fyrir vírusa og innilokanir.

Á sama hátt er ómetanlegt fyrir þjóðir að ráða sjálfar sínum efnahagsmálum, reka sína eigin peningastefnu og eiga sinn eigin gjaldmiðil. Kostir þess hafa sýnt sig í fyrri kreppum og þeir munu gera það núna.

Íslenskur iðnaður þekkir þetta vel. Líkt og aðrar þjóðir hafa Íslendingar tekist á við miklar efnahagssveiflur, en með sjálfstæði og sveigjanleika í farteskinu hefur okkur tekist að vinna vel úr áföllunum. Nái ég kosningu sem formaður Samtaka iðnaðarins mun ég beita mér fyrir auknu alþjóðasamstarfi iðnaðarins. Ég vil að iðnaðurinn efni til meira samstarfs út fyrir Norðurlöndin og Evrópu, við systursamtök í öðrum heimsálfum og löndum sem hafa náð langt. Tækifærin eru víða og einskorðast sannarlega ekki við innri markað Evrópusambandsins.

Sum af stærstu fyrirtækjum Samtaka iðnaðarins hafa talað fyrir og jafnvel beitt sér markvisst fyrir inngöngu Íslands í ESB og upptöku evru, þvert á vilja hins almenna félagsmanns.

Sum af stærstu fyrirtækjum Samtaka iðnaðarins hafa talað fyrir og jafnvel beitt sér markvisst fyrir inngöngu Íslands í ESB og upptöku evru, þvert á vilja hins almenna félagsmanns. Það er skiljanlegt að einstök fyrirtæki berjist fyrir málum sem koma þeim sjálfum vel, en heildarhagsmunir þjóða og hagkerfa vega þyngra. Við eigum að rækta okkar eigin garð, bæta aðstæður og rekstrarskilyrði fyrirtækja án þess að gefa frá okkur fríðindin sem felast í sjálfstæðinu.

Ýmsar lagfæringar á rekstrarumhverfinu hafa verið gerðar og við eigum að mæta framtíðinni með metnað til að gera betur. Hér hafa stórfyrirtæki orðið til og blómstrað á alþjóðlegum samkeppnismörkuðum, en líka notið góðs af íslenskri umgjörð og opinberum stuðningi. Aðild að Evrópusambandinu er því ekki forsenda fyrir góðum rekstri, sjálfbærni í fyrirtækjarekstri og vexti. Við berum ábyrgð á okkur sjálf og engin þjóð tekur okkar hagsmuni fram yfir sína. Við getum lært af frábærum árangri þeirra glæsilegu íslensku fyrirtækja sem náð hafa lengst og vinna í samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda að framgangi og vexti íslensks iðnað-ar. Þar eiga þjóðabandalög eða stjórnvöld í öðrum löndum ekki að ráða för.

Að loknum heimsfaraldri mun alþjóðasamstarf og samvinna heimsálfa á milli aftur taka við sér, en það er ljóst að heimurinn verður ekki samur. Í breyttum heimi þarf skýra stefnu, markvissan stuðning við sókn á nýja markaði og virka þátttöku í samtali um framtíð alþjóðaviðskipta. Í slíku samstarfi höfum við ýmislegt fram að færa, því hér hafa áföll og lausnir oft verið aðrar en önnur hagkerfi þekkja. Við eigum að miðla af okkar reynslu, en taka þátt í samstarfi með opnum huga og leita að tækifærum til að bæta okkar samfélag. Í samstarfi gefum við þó engan afslátt af hagsmunum lands og þjóðar, við leggjum áherslu á sjálfbærni, umhverfismál og eignarhald og forræði yfir eigin landi.

Höfundur er stjórnarformaður Límtré Vírnets, Securitas og frambjóðandi til formanns Samtaka iðnaðarins.