Fasteignagjöld sveiflast mikið á milli ára. Það gerir dregur úr hvötum til að gera langtímaleigusamninga og leiðir til óvissuálags á leiguverði. Þetta segir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri leigufélagsins Ölmu, í ítarlegu viðtali sem birtist í Markaðnum.

Hún bendir á að fasteignaskattar hafi lengi verið háir á Íslandi í alþjóðlegum samanburði. Þeir séu stærsti liðurinn í rekstrarkostnaði fasteigna, bæði hjá eigendum íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis.

„Það versta við núverandi fyrirkomulag á álagningu fasteignagjalda er þó hversu lítill fyrirsjáanleiki er í gjaldtökunni. Fasteignagjöld ráðast annars vegar af fasteignamati sem Þjóðskrá gefur út á ári hverju og hins vegar af gjaldskrám einstakra sveitarfélaga.

Báðir þessir liðir geta sveiflast mikið milli ára og ráðast af veðri og vindum hverju sinni. Afleiðingin er sú að það er erfiðara að gera áætlanir til lengri tíma, sem dregur úr hvötum til þess að gera langtímaleigusamninga og skilar sér í óvissuálagi á leiguverð. Þetta fyrirkomulag er gallað og það er erfitt að hugsa sér að við myndum sætta okkur við sama ófyrirsjáanleika í annarri skattheimtu,“ segir María Björk.