Upplýsingatæknifyrirtækið Svar hefur vegna aukinna umsvifa ráðið til sín sjö nýja starfsmenn, þau Önnu Lilju Sigurðardóttur, Bessa Toan Ingason, Grétar Örn Hjartarson, Írisi Dögg Eiðsdóttur, Katrínu M. Guðjónsdóttur, Lindu Wessman og Sigríði Birnu Sigurðardóttur.

Nýju starfskraftarnir hafa flestir framhaldsmenntun á sviði viðskipta, bókhalds og tölvunarfræði.

„Það er mjög ánægjulegt hversu öfluga einstaklinga við höfum fengið til liðs við okkur og aukinn áhugi kvenfólks á störfum í tæknigeiranum er auðvitað gleðiefni,“ segir Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Svars.

Svar veitir viðskiptavinum sínum tæknilausnir í skýinu, eins og bókhaldskerfi, rekstrarkerfi og verk- og tímaskráningarkerfi.