Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, stjórnarmaður í VÍS, segist mæta furðu mikilli fyrirstöðu frá aðilum sem engra hagsmuna eigi að gæta hjá félaginu. Þetta skrifar Svanhildur í grein sem var birt í Markaðinum í dag en tilefnið er úrsögn Helgu Hlínar Hákonardóttur og Jóns Sigurðssonar úr stjórn VÍS.

Sjá einnig: Hagsmunir VÍS settir í öndvegi

Helga Hlín og Jón sögðu sig úr stjórninni í síðustu viku. Ástæða úrsagnar þeirra var sögð ágreiningur um stjórnarhætti innan stjórnar félagsins ásamt trúnaðarbresti og ágreiningi um umboðsskyldu stjórnarmanna. 

Sjá einnig: Helga Hlín og Jón segja sig úr stjórn VÍS

Svanhildur tilkynnti í byrjun sumars að hún myndi stíga tímabundið niður sem formaður af persónulegum ástæðum vegna rannsóknar embættis héraðssaksóknara á viðskiptum hennar og fleiri með eignarhluti í Skeljungi og olíufélaginu Magn í Færeyjum.

„Upphaflega stóð til að Valdimar Svavarsson yrði kjörinn nýr formaður stjórnar, en að tillögu Helgu Hlínar Hákonardóttur var ákveðið að hún, sem varaformaður félagsins, tæki tímabundið að sér verkefni formanns. Enginn var kjörinn varaformaður í hennar stað, enda var öllum ljóst að ráðstöfunin væri til bráðabirgða, þar til framgangur ofangreindrar rannsóknar yrði ljós,“ skrifar hún.

Helgu þótti að sér vegið

Þegar ljóst var orðið að rannsóknin drægist á langinn var óhjákvæmilegt að stjórn VÍS skipti formlega og varanlega með sér verkum, skrifar Svanhildur. Hún segir að ýmsir hagaðilar VÍS hafi hvatt sig til að taka aftur við stjórnarformennskunni. Hún hafi talið það ótímabært og lagði meirihluti stjórnar til að Valdimar Svavarsson yrði stjórnarformaður og Helga Hlín áfram varaformaður. 

„Því hafnaði hún, þótti að sér vegið og hótaði afsögn ef það yrði niðurstaðan. Það sama gerði Jón Sigurðsson. Hótanirnar komu á óvart, enda hafði samstarfið í stjórninni verið gott og rík áhersla verið lögð á góða stjórnarhætti. Tilraunir til að fá sitt fram með hótunum um afsögn rúmast ekki innan góðra stjórnarhátta og því bjóst ég við að allir stjórnarmenn myndu sætta sig við niðurstöðuna úr lýðræðislegu kjöri. Raunin varð önnur.“

Láti ekki stolt ráða för

Þá segir Svanhildur að hún sé  sannfærð um að stjórnin muni áfram vinna markvisst að hagsmunum félagsins, en ekki láta aðra hagsmuni eða stolt ráða för. Árangurinn félagsins sem af er ári gefi góð fyrirheit um næstu misseri. 

„Við njótum mikils stuðnings hluthafa á þeirri vegferð, en furðu mikillar fyrirstöðu frá aðilum sem engra hagsmuna eiga að gæta hjá félaginu. Kannski er það til marks um að við séum á réttri leið.“