Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og stjórnarmaður í VÍS, hefur selt allan hlut sinn í tryggingafélaginu fyrir rúmlega 1.550 milljónir króna. Félagið K2B fjárfestingar, sem er í eigu Svanhildar, átti fyrir viðskiptin 7,25 prósenta hlut í VÍS og var þriðji strærsti hluthafi fyrirtækisins.

Eftir því sem Markaðurinn kemst næst voru kaupendur af bréfunum breiður hópur fjárfesta. Það voru Fossar markaðir sem höfðu umsjón með viðskiptunum.

Viðskiptin fóru fram á genginu 10,96 krónur á hlut, samtals 141,65 milljónir bréfa, sem er tæplega fjórum prósentum lægra en gengi bréfanna var við lokun markaða í gær.

Svanhildur, ásamt eiginmanni sínum Guðmundi Þórðarsyni, hefur síðustu ár verið stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi VÍS og var um tíma stjórnarformaður félagsins. Þá eru þau einnig á meðal stærstu hluthafa Kviku banka með tæplega sjö prósenta hlut en Guðmundur er jafnframt varaformaður stjórnar bankans.

Svanhildur hætti sem stjórnarformaður VÍS í fyrra í kjölfar þess að embætti héraðssaksóknara tók til skoðunar kaup hjónanna, með öðrum fjárfestum, á hlutum í Skeljungi árið 2008 og færeyska olíufélaginu P/F Magn árið 2009. Rannsóknin kom til vegna kæru sem Íslandsbanki lagði fram.