Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, fjárfestir og áður einn stærsti hluthafi VÍS, og Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins, eru á meðal þeirra sem sækjast nú eftir því að komast í stjórn fjarskiptafélagsins Sýn. Talið er að mögulega muni þrír nýir stjórnarmenn taka sæti í stjórn félagsins þegar aðalfundur fer fram 20. mars næstkomandi.

Svanhildur kom fyrst inn í hluthafahóp Sýnar í byrjun þessa árs en félagið K2B fjárfestingar, sem er í eigu hennar, fer með 1,6 prósenta hlut í félaginu. Að baki framboði Svanhildar í stjórn Sýn standa einnig meðal annars fjárfestar sem eiga eignarhaldsfélagið Óskabein og fara með tæplega fimm prósenta hlut í fjarskiptafyrirtækinu í gegnum framvirka samninga.

Þeir sem ráða för í Óskabeini eru viðskiptafélagarnir Andri Gunnarsson og Fannar Ólafsson, sem eru meðal annars í hópi eigenda að Keahótelum, Gestur Breiðfjörð Gestsson, fráfarandi stjórnarmaður í VÍS og eigandi Sparnaðar, og Engilbert Hafsteinsson, fjárfestir og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá WOW air.

Þá hefur Kristín einnig skilað inn framboði til stjórnar félagsins til tilnefningarnefndar en hún hefur að unndaförnu, samkvæmt heimildum Markaðarins, leitað til sumra af stærstu hluthöfum Sýnar um stuðning.. -

Kristín Þorsteinsdótir var áður aðalritstjóri og útgefandi Fréttablaðsins.

Tveir varamenn tóku sæti í stjórn Sýnar á liðnu ári samhliða því að Heiðar Guðjónsson, sem þá var stjórnarformaður, tók við starfi forstjóra Sýnar í aprílmánuði og undir lok síðasta árs var Yngvi Halldórsson ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarsviðs félagsins og sagði sig þá um leið úr stjórn fyrirtækisins.

Samkvæmt heimildum Markaðarins þykir fullvíst að Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður Sýnar, og Tanya Zharov, aðstoðarforstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, verði áfram í stjórn félagsins. Óvíst er hins vegar hvort aðrir stjórnarmenn, meðal annars Anna Guðný Aradóttir, sem hefur verið í stjórn frá árinu 2012, muni njóta stuðnings til áframhaldandi stjórnarsetu.

Stærstu hluthafa Sýnar eru Gildi, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Ursus, fjárfestingafélag Heiðars Guðjónssonar. Breski vogunarsjóðurinn Lansdowne var fyrir aðeins fáum mánuðum stærsti hluthafi félagsins með liðlega fjórtan prósenta hlut en sjóðurinn hefur á skömmum tíma selt nær allan hlut sinn og fer í dag með aðeins um 3,7 prósenta hlut.

Markaðsvirði Sýnar er í dag um 10,7 milljarðar króna og hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um nærri 28 prósent á síðustu þremur mánuðum