Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir fjárfestir er komin í hóp stærstu hluthafa Sýnar með tæplega 1,6 prósenta eignarhlut. Hlutur félagsins K2B fjárfestingar, sem er í eigu Svanhildar, er metinn á ríflega 170 milljónir króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í fjarskiptafélaginu.

Fjárfestingafélag Svanhildar heldur nánar tiltekið á 4,65 milljónum hluta í Sýn, samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa fjarskiptafélagsins, dagsettum 30. janúar, og er þannig sautjándi stærsti hluthafi félagsins.

Með kaupum sínum í Sýn er Svanhildur komin í hóp umsvifamestu einkafjárfestanna í hluthafahópi félagsins en aðrir einkafjárfestar eru meðal annars Heiðar Guðjónsson, fjárfestir og forstjóri Sýnar, sem fer með 9,2 prósenta hlut í fjarskiptafélaginu og þá á félag á vegum Róberts Wessman, forstjóra Alvogen, og Hilmars Þórs Kristinssonar fjárfestis rúmlega 2,5 prósenta hlut í Sýn.

Eins og greint var frá í Markaðinum seldi Svanhildur allan hlut sinn í VÍS í nóvember í fyrra fyrir rúmlega 1.550 milljónir króna. Áðurnefnt félag Svanhildar, sem situr í stjórn tryggingafélagsins, átti fyrir viðskiptin 7,25 prósenta hlut í VÍS og var þriðji stærsti hluthafi félagsins.

Svanhildur er auk þess þriðji stærsti hluthafi Kviku banka með um 6,7 prósenta hlut.

Hún hætti sem stjórnarformaður í VÍS um mitt ár 2018 í kjölfar þess að embætti héraðssaksóknara tók til skoðunar kaup hennar og Guðmundar Arnar Þórðarsonar, með öðrum fjárfestum, á hlutum í Skeljungi árið 2008 og færeyska olíufélaginu P/F Magn árið 2009. Rannsóknin kom til vegna kæru sem Íslandsbanki lagði fram.

Gengi hlutabréfa í Sýn hefur hækkað um 4,9 prósent frá áramótum en sé litið til síðustu tólf mánaða nemur gengislækkun bréfanna um 7,9 prósentum.