Viðskiptaráð Íslands hefur ráðið Svanhildi Hólm Valsdóttur í starf framkvæmdastjóra. Hún hefur störf hjá Viðskiptaráði 1. desember.

Svanhildur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands með MBA-gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Síðastliðin ár hefur Svanhildur starfað sem aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, með stuttri viðdvöl í forsætisráðuneytinu, en hún vann einnig við fjölmiðla um árabil. Svanhildur tekur við stöðunni af Ástu Sigríði Fjeldsted sem var ráðin framkvæmdastjóri Krónunnar.

„Við erum afar spennt að fá Svanhildi til liðs við okkur. Hún hefur mikla reynslu og þekkingu á efnahags- og viðskiptalífinu sem er dýrmætt á þessum víðsjárverðu tímum. Viðskiptaráð er mikilvæg rödd íslensks atvinnulífs og hjá okkur eru spennandi verkefni framundan, sem Svanhildur mun koma inn í af krafti.“ segir Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs.