Svana Gunnarsdóttir, Kristín Friðgeirsdóttir og Frosti Ólafsson voru kjörin ný í stjórn hjá Controlant í síðustu viku. Þau taka sæti Eggerts Claessen, sem er fjárfestingastjóri Frumtaks, Baldurs Guðlaugssonar og Bessa Gíslasonar.

Svana, sem verður stjórnarformaður Controlant, er framkvæmdastjóri Frumtak Ventures. Félagið rekur Frumtakssjóðina, sem eru stærstu hluthafar í Controlant. Kristín er stjórnendaráðgjafi, prófessor við London Business School og fyrrverandi stjórnarformaður Haga. Frosti Ólafsson er fyrrverandi framkvæmdastjóri Orf líftækni og Viðskiptaráðs, en starfar í dag sem sjálfstæður ráðgjafi, auk þess að sitja í stjórn Íslandsbanka og Háskólans í Reykjavík.

Auk þeirra sitja áfram í stjórn Ingi Guðjónsson, lyfjafræðingur og fjárfestir, og Trausti Þórmundsson, einn stofnenda Contr­olant.

Controlant er hátæknifyrirtæki sem vaktar hitastig og staðsetningu lyfja og annarra viðkvæmra vara í flutningi milli landa.