Svana Gunnarsdóttir, sem hefur starfað sem fjárfestingastjóri Frumtaks, mun taka við stöðu framkvæmdastjóra félagsins, að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Um leið mun Eggert Claessen, núverandi framkvæmdastjóri Frumtaks, taka til starfa sem fjárfestingastjóri hjá félaginu.

Eggert og Svana eru eigendur Frumtaks Ventures, umsýsluaðila sjóða Frumtaks, en sjóðirnir eru samanlagt um níu milljarðar króna að stærð og í eigu helstu lífeyrissjóða og banka landsins.

Þau vinna nú að stofnun nýs sjóðs, Frumtaks III,. sem tekur væntanlega til starfa á næsta ári, eftir því sem fram kemur í tilkynningunni.

„Fjárfestingar í nýsköpun eru mikilvægur drifkraftur í sköpun atvinnutækifæra þar sem tækniframfarir stuðla að uppsprettu nýrra hugmynda og fjölbreytni atvinnulífs samfélagsins, “ segir Svana í tilkynningunni.

Það sé spennandi áskorun að taka þátt í áherslubreytingu hagkerfisins sem í sífellt ríkara mæli færist úr auðlindadrifinu yfir í hugvitsdrifnara hagkerfi án landamæra. „Það eru einnig forréttindi að vinna með öllu þessu djarfhuga fólki sem þorir að láta draumana rætast,“ er haft eftir Svönu.

Svana hóf störf sem fjárfestingastjóri hjá Frumtaki í febrúar árið 2009. Hún er með alþjóðlega meistaragráðu frá Nyenrode University í Hollandi en hluti af því námi var við Kellogg School of Management í Bandaríkjunum og Stellenbosch University í Suður Afríku, auk þess sem hún hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Svana hefur einnig komið að stjórnarsetu og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í öðrum sprotafyrirtækjum. Hún kom að stofnum Framís sem eru samtök framtaksfjárfesta í nýsköpun og hefur jafnframt setið í stjórnum þeirra félaga sem sjóðir Frumtaks hafa fjárfest í. Situr hún nú í stjórn Meniga, Trackwell, MainManager, Arctic Trucks, Mentor, Tulipop og Framís.

Frumtak hefur þegar fjárfest í 21 fyrirtæki sem velta tæpum sjö milljörðum króna á ári, að því er segir í tilkynningunni.