Greiningaraðilinn Summa segir að niðurstöður minnisblaðs síns um arðsemi Landsnets standi óhögguð. Í kjölfar fréttar Markaðarins þann 21.október síðastliðinn um yfirfærslu eignastofns Landsnets úr íslenskum krónum yfir í Bandaríkjadal, sem byggði á minnisblaði Summu, var því hafnað að eignastofn fyrirtækisins væri of hátt metinn. En í minnisblaði Summu kom fram að færsla eignastofnsins hefði miðað við gengi Bandaríkjadals gagnvart krónunni um mitt ár 2007, þegar íslenska krónan var sögulega sterk. Þar af leiðandi sé eignastofn Landsnets of hátt skráður, en verðskrá fyrirtækisins tekur mið af eignastofninum. Þar af leiðandi sé flutningskostnaður raforku á Íslandi hærri en ella.

„Summa byggði minnisblaðið á opinberum upplýsingum og bar einkum saman arðsemi Landsnets við tekjumörk sem fyrirtækinu eru sett skv. líkani Orkustofnunar. Jafnframt kannaði Summa hvað áhrif yfirfærsla eigna Landsnets sem tengjast stórnotendum úr íslenskum krónum í bandaríkjadal árið 2011 hafði og hverju aðrar forsendur en stuðst var við hefðu breytt þar um. Eins og vikið er að síðar virðist Landsnet ekki gera athugasemdir við helstu niðurstöður minnisblaðs Summu, þ.e. hvað varðar arðsemi og tekjumörk,“ segir í tilkynningu frá Summu.

„Hvað umfjöllun um hvaða hluta eignagrunns sé fjallað segir í inngangi minnisblaðs Summu að til skoðunar sé uppfærslan á eignagrunni LN fyrir stórnotendur í lok árs 2010. Ljóst má vera að í framhaldinu er það sá hluti eignagrunns Landsnets sem er til skoðunar enda fjallað um uppfærðan eignagrunn í sérstökum kafla. Því er því ekki haldið fram að allur eignagrunnur Landsnets hafi verið uppfærður né að það eigi við um fjárfestingar á árabilinu 2008-2010. Enn fremur er ljóst að gengi krónu gegn bandaríkjadal var um 90% lægra þegar yfirfærslan 2011 var framkvæmd en yfirfærslugengið sjálft sem miðaðist við 31. júlí 2007. Það þýðir ekki að eignagrunnurinn hafi tvöfaldast í heild enda kemur fram í minnisblaðinu að eignagrunnurinn í heild hækkaði úr um 63 milljörðum í um 80 milljarða frá 2010 til 2011, þegar yfirfærslan átti sér stað, eða um 27%. Summa veit heldur ekki hvert rétt viðmiðunargengi yfirfærslunnar eigi að vera en bendir á að gengið sem var valið sé sögulega sterkt og reiknar nokkrar stærðir með meðalgengi yfir tímabil til viðmiðunar til að varpa ljósi á að þetta val skiptir máli.

Þá er því ekki haldið fram að arðsemi Landsnets sé ekki innan löglegra marka og Summu fyllilega ljóst af hverju arðsemin er hærri en niðurstaða líkans Orkustofnunar enda segir í minnisblaðinu:

Sögulega hefur eiginfjárhlutfall LN verið mun lægra en það eiginfjárhlutfall sem Orkustofnun hefur notað. Eiginfjárhlutfall LN hefur farið frá því að vera 16,4% árið 2010 í að vera 43,8% árið 2018. Aukin gírun hefur því skilað sér í mun hærri arðsemi eigin fjár LN en gert er ráð fyrir í WACC líkani Orkustofnunar [innsk. líkan um veginn fjármagnskostnað].

Í tilkynningu Landsnets er ekki gerð athugasemd við þá niðurstöðu Summu að árleg arðsemi Landsnets á árabilinu 2011-2018 hafi verið um 20% að jafnaði á meðan viðmiðunarlíkan Orkustofnunar gaf mun lægri arðsemi. Sú niðurstaða virðist því óumdeild. Samkvæmt tilkynningu Landsnets hafði félagið heimild Orkustofnunar til hagnaðar um 14 milljarða til viðbótar 2011-2018 en nýting þeirrar heimildar hefði þá líklega skilað um 25% árlegri ávöxtun eigin fjár að jafnaði á tímabilinu,“ segir Summa.