Mögulega horfa fjárfestar til þess að með kaupum á WOW air megi bæta arðsemi Icelandair en ef til vill horfa einstaka fjárfestar til þess að samningaviðræður muni sigla í strand og að Icelandair sitji einir að markaðnum. Þetta segir Arnar Ingi Jónsson, hlutabréfagreinandi hjá Landsbankanum.

Í morgun hækkaði hlutabréfaverð Icelandair Group um fjórðung en þegar þetta er ritað nemur hækkunin tíu prósent. 

Upplýst var í gærkvöldi að í kjölfar tilkynningar frá WOW air um slit viðræðna við Indigo Partners, hafi stjórn Icelandair Group samþykkt að hefja viðræður við WOW air um aðkomu að rekstri félagsins

WOW air hefur um alllangt skeið glímt við rekstrarvanda. „Það hillir undir að einhvers konar málalok. Það er erfitt að segja til um hvort af samningum verði. Sagan hefur kennt okkur að það er ekkert gefið í þessum málum,“ segir hann.

Arnar Ingi segir að það hljóti að hafa haft áhrif á ákvörðun stjórnendur Icelandair Group að búið sé að kyrrsetja Boeing 747 MAX flugvélar. Flugfélagið eigi þrjár slíkar vélar og í ár bætist við sex í flotann. 

„Stjórnendur Icelandair Group verða að leysa þann vanda en það er vel í lagt að kaupa heilt flugfélag til að leysa hann. Forsendur til að kaupa flugfélagið yrði að vera aðrar,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji líklegt að Icelandair Group stefni á að kaupa einstaka eignir af WOW eða félagið að fullu og fá á móti niðurfellingu skulda telur Arnar Ingi að stjórnendur Icelandair séu reiðubúnir til að skoða ýmsa fleti á málinu. 

„Ég myndi ætla að Skúli Mogensen, eigandi WOW air, rói öllum árum að því að selja allt félagið. Það væri eðlilegri ferill,“ segi Arnar Ingi.

Að hans sögn er mögulegt að sú vinna Indigo Partners réðust í, til að mynda varðandi afskriftir hjá skuldabréfaeigendum, hafi glætt áhuga Icelandair Group. 

„Stjórnendur Icelandair Group ætla komast að niðurstöðu um kaupin á mánudag. Ef til vil hefur þar mikið að segja hve hratt er hægt að vinna málið að WOW air hefur lengi verið í söluferli og því hefur mikil undirbúningsvinna verið unnin,“ segir Arnar Ingi.