Stjórnvöld í fjórum Evrópuríkjum hafa lagt tímabundið bann við skortsölu í hlutabréfum fjölda félaga í því augnamiði að róa fjárfesta sem óttast víðtæk efnahagsáhrif kórónaveirunnar.

Bannið gildir á hlutabréfamörkuðum í Frakklandi, Belgíu, á Ítalíu og Spáni, en misjafnt er á milli ríkja hve lengi það mun vara, eftir því sem fram kemur í frétt Financial Times.

Skortsala gengur þannig fyrir sig að fjárfestar fá lánuð hlutabréf sem þeir selja í kjölfarið á markaði í von um að þau lækki í verði. Fjárfestarnir kaupa svo bréfin aftur og skila þeim til þess sem lánaði þeim þau upphaflega. Þannig reyna þeir að hagnast á lækkandi hlutabréfaverði.

Eftirlitsstofnanir telja að slík viðskipti séu til þess fallin að ýkja sveiflur á markaði þegar þar ríkir óvissuástand.

„Þetta er góð og nauðsynleg ákvörðun,“ sagði Bruno Le Maire, fjármálaráðherra Frakklands, um skortsölubannið í gærmorgun.

„Við erum reiðubúin til þess að ganga lengra þannig að bannið gildi í allt að mánuð. Við viljum forðast spákaupmennsku á mörkuðum,“ sagði ráðherrann.