Skýrsla Ríkisendurskoðunar um starfsemi Lindarhvols, eignaumsýslufélags sem var falið að halda utan um tugmilljarða eignir sem voru afhentar stjórnvöldum vegna stöðugleikaframlags slitabúa gömlu bankanna, verður líklega komin til Alþingis um næstu mánaðamót eða rétt eftir þau, að öðru óbreyttu. Þetta segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi í svari við fyrirspurn Markaðarins.

Ríkisendurskoðun lauk við gerð skýrslunnar seint á síðasta ári og segir Skúli Eggert að hún sé nú í umsagnarferli hjá stjórn Lindarhvols.

„Að því loknu verður skýrslan send Alþingi. Það fer eftir umsögninni og umfangi hennar hvort rannsaka þurfi eitthvað til viðbótar en ef svo er ekki er líklegt að skýrslan verði komin til Alþingis um næstu mánaðamót eða rétt eftir þau,“ segir í svari Skúla Eggerts.

Stefnt var að því að skýrslan kæmi út síðasta haust en ríkisendurskoðandi tekur fram að lokavinnslan hafi verið tímafrekari en reiknað hafði verið með. Því hafi ekki verið unnt að ljúka skýrslugerðinni fyrr en í lok ársins.

Þegar Alþingi hefur tekið skýrsluna til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fer skýrslan inn á vef Ríkisendurskoðunar til opinberrar birtingar, að sögn Skúla Eggerts.

Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilaði greinargerð um starfsemi Lindarhvols um mitt ár 2018. Ríkisendurskoðun tók í kjölfarið við verkefninu og hefur síðan þá unnið að gerð heildstæðrar úttektar á störfum félagsins.

Lindarhvol var falið að halda utan um tugmilljarða stöðugleikaeignir ríkisins.
Fréttablaðið/Vilhelm

Lindarhvol lauk þeim verkefnum sem því voru falin snemma árs 2018, í kjölfar sölu á öllu hlutafé ríkisins í Lyfju, og var félaginu í kjölfarið slitið. Kom þá fram að andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem innleystar höfðu verið næmi alls um 207,5 milljörðum króna og væru þá frátalin framlög vegna viðskiptabanka og aðrar óinnleystar eignir. Umræddir fjármunir voru nýttir til þess að greiða niður útistandandi skuldir ríkissjóðs, mæta tekjutapi vegna sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og fjármagna auk þess lífeyrisskuldbindingar.